Krefjast 5 ára fangelsisdóms yfir Björgólfi - Sagður hafa skipulagt Ponzi-svindl

Krefjast 5 ára fangelsisdóms yfir Björgólfi - Sagður hafa skipulagt Ponzi-svindl

Áfrýjunardómstóll í París mun taka fyrir mál gegn Björgólfi Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Landsbankans á næstunni. Krefjast saksóknarar þar í landi hámarksrefsingu yfir honum eða sem samsvarar 5 ára fangelsi. Stundin greinir frá þessu.

Snýst málið um lánveitingar útibús Landsbankans í Lúxemborg til ellilífeyrisþega rétt fyrir fall bankans. Samkvæmt gögnum sem Stundin hefur undir höndum kalla saksóknarar þetta Ponzi-svindl og telja þeir að lánveitingarnar hafi verið skipulögð með þeim eina tilgangi að svíkja fjármuni af fólki. Lánin voru veitt gegn veðum í fasteignum lántakanda sem þeir fengu svo eingöngu greiddan út að hluta. Afgangur fjármunanna voru síðan settir í fjárfestingar hjá bankanum, sem átti svo að skila sömu ávöxtun svo hægt væri að greiða vaxtakostnaðinn af upprunalega láninu. 

Segja saksóknarar að bankinn hafi metið eignir lántakendanna mun hærri en raunverulegt verðmæti þeirra var. Þetta var gert til að geta lánað sem mest. Loks hafi fjármunirnir verið notaðir í allt annað en bankinn sagði viðskiptavinum sínum að hann myndi nota þá í. Einnig kemur fram í gögnunum sem Stundin hefur að stjórnendur Landsbankans í Lúxemborg hafi ítrekað gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega stöðu bankans fyrir fall hans.

Fara saksóknarar fram á hæstu mögulega refsinguna sem frönsk lög bjóða upp á. Fari svo að Björgólfur Guðmundsson verði dæmdur á hann yfir höfði sér 5 ára fangelsisdóm ásamt því að þurfa að borga sekt upp á rúmar 52 milljónir króna. Björgólfur átti ásamt syni sínum Björgólfi Thor Björgólfssyni um 50% hlut í bankanum.

Björgólfur er ekki eini Íslendingurinn sem er krafist fangelsisdóm yfir, því einnig er farið fram á að Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi yfirmaður Landsbankans í Lúxemborg, fái þriggja ára skilorðsbundinn dóm og 7 milljóna króna sekt fyrir sinn hlut í málinu. Eins og kemur fram að ofan er um áfrýjun að ræða, en Björgólfur og Gunnar voru báðir sýknaðir í frönskum dómstólum árið 2017. 

Nýjast