Krafa um að vera framsóknarmaður

Reiði og fordæming einkennir viðbrögð fólks við þeim ósvífna gjörningi samgönguráðherra að skipa kollega sinn, dýralækninn Bergþóru Þorkelsdóttur, í stöðu forstjóra Vegagerðar ríkisins. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem æðsti yfirmaður Vegagerðarinnar  á Íslandi er ekki verkfræðimenntaður. Þegar staðan var auglýst var þess sérstaklega gætt að gera engar kröfur um verkfræði-eða tækniþekkingu þannig að unnt yrði að skipa Bergþóru í starfið.

 

Vinnubrögð af þessu tagi tíðkuðust á síðustu öld, einkum og sér í lagi þegar Framsóknarflokkurinn hafði völd. Menn héldu að svona háttsemi tilheyrði liðinni tíð. En framsóknarmenn breytast ekki og þeir ganga eins langt í klíkuskap og frændhygli og hugsast getur. Bergþóra er dýralæknir eins og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Ekki þarf að gera lítið úr ágætri menntun sem  dýralæknar þurfa að afla sér en það er þá æskilegt að sú menntun sé notuð til starfa á sviði dýravelferðar eða matvælaeftirlits. Engin rök eru fyrir því að ætla að nám í dýralækningum komi að haldi við að stýra Vegagerðinni.

 

Nú sýnir Framsóknarflokkurinn sitt rétta andlit. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins og dýralæknir virðist telja að langt sé til næstu kosninga og að kjósendur verði búnir að gleyma misgjörðum af þessu tagi. En það getur verið styttra til næstu kosninga en menn grunar. Og þá verður stjórnarflokkunum refsað fyrir það sem illa er gert. Þessi embættisskipan verður þar á meðal. Samkvæmt nýjustu Gallup könnun er fylgi Framsóknar komið niður í 8.5% og á niðurleið. 

 

Eru skilaboð framsóknarmanna til almennings þau að ekki þurfi lengur að gera kröfur um að umsækjendur um embætti hafi til að bera sérhæfða þekkingu á því sviði sem embættið tekur til? Vitanlega hefði þurft að ráða verkfræðing til að stýra Vegagerðinni. Eigum við von á því að næst þegar ráðinn verður yfirdýralæknir verði látið gott heita að velja til þess starfs járniðnaðarmann, kennara eða verkfræðing?

 

Hvar á að draga mörkin? Verður það látið óátalið ef Icelandair ræður réttindalausa flugmenn eða flugstjóra með svona auglýsingu:

 

„Icelandair óskar eftir að ráða flugmenn og flugstjóra til starf á þotum felagsins. Engar sérstakar menntunar-eða hæfiskröfur eru gerðar. Æskilegt að umsækjendur hafi háskólapróf, t.d á sviði dýralækningu, kynjafræði, mannfræði eða heimspeki.“

 

Eða getum við vænst þess að LSH auglýsi stöðu yfirlæknis á hjartadeild án þess að kröfur verði gerðar um læknismenntun eða reynslu?

 

Vonandi gerist þetta ekki. En framsóknarmenn eru að setja ný viðmið með ósvífinni framkomu sinni.

 

Í þessu sambandi rifjast upp gömul saga frá því fyrir um 20 árum. Fjölmiðlamaður komst þá þannig að orði eftir að honum blöskraði embættisveiting ráðherra Framsóknarflokksins. Hann sagði: „Til hvers að eyða tíma í að mennta sig og reyna að vera hæfur – þegar maður getur bara sleppt því og gengið í Framsóknarflokkinn.“

 

Sagan endurtekur sig þó runnin sé upp ný öld. Framsókn breytist ekki neitt.

 

Rtá.