Kosið um frestun Brexit í dag

Kosið um frestun Brexit í dag

Þingmenn breska þingsins munu kjósa um frestun Brexit í dag. Í gær hafnaði þingið útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings og daginn áður var samningi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um útgönguna hafnað af þinginu í annað sinn. Fréttablaðið greinir frá.

Í dag verður kosið um framlengingu á 50. grein Lissabon-sáttmálans, sem kveður m.a. á um að ríki sem hyggst ganga út úr ESB verði að gera það í síðasta lagi tveimur árum eftir að ESB er tilkynnt um það. Þann 29. mars næstkomandi eru tvö ár síðan Bretland virkjaði 50. grein sáttmálans og tilkynnti formlega um fyrirhugaða útgöngu sína. Því hefur formleg útganga verið áætluð á þeim degi í ár.

Vegna þeirrar miklu óvissu sem hefur skapast í kringum útgönguna vill breska ríkisstjórnin fresta henni. Lengd frestunarinnar mun velta á því hvort þingmenn styðji útgöngusamning May fyrir 20. mars. May hefur boðað þriðju atkvæðagreiðsluna um samning sinn í næstu viku þó engin staðfest dagsetning hafi verið gefin upp. Verði samningnum hafnað í þriðja sinn hefur hún sagt að frestun útgöngunnar verði í lengri tíma, en verði hann samþykktur verði um stutta frestun að ræða.

Nýjast