Konurnar eru verst farnar

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga á Íslandi varar við því að túlka samanburð við önnur Norðurlönd Íslandi í hag eins og gert hefur verið en ný samnorræn fangelsisskýrsla kom nýlega út um endurkomur í fangelsi. Hér sé refsivörslukerfið hér á landi allt öðruvísi, biðtími lengri eftir afplánun og dómar birtast til dæmis seinna en annars staðar á Norðurlöndum.

Ísland á met í endurkomutíðin fanga miðað við tölur sem Fangelsismálastofnun birtir í ársskýrslu sinni. Yfir 46 prósent fyrrverandi fanga fóru aftur í afplánun árið 2016 sem eru nýjustu opinberar tölur.  Árið 2011 var þetta hlutfall 29 prósent.

Guðmundur Ingi segir í viðtali hjá Lindu Blöndal í 21 á Hringbraut í kvöld að nýtt fangelsi á Hólmsheiði sé ekki til þess að minnka endurkomur.  „Persónulega held að þetta sé eitt mesta slys sem hefur orðið, þetta er illa hannað og undirmannað. Það er ekki hægt að reka þetta, það er bara ekki til peningur fyrir því Það er engin skólaaðstaða fyrir verknám, erfiðar vinnuaðstæður, þetta er ofboðslega stofnanalegt. Það er ekki einu sinni búið að semja um heilbrigðisþjónustu í þessu fangelsi, það er ekki búið að semja um menntamál á Hólmsheiði. Það vantar allt. Þetta er bara steypukassinn“.

Staðan hjá konunum er verri en karlanna eða sambærileg verstu tilvikunum meðal þeirra. „Þær koma veikari inn í fyrsta skipti. Ég held að það sé verið að gera þeim einhvern greiða í dómskerfinu, þær fara seinna inn og hafa því lengri tíma að skemma sig“, segir Guðmundur Ingi. Endurkomutíðnin hjá konum er að sama skapi hærri.