Konur taka fram úr körlum í skólasókn

Vorið 1918 brautskráðust 24 karlar og tvær konur með stúdentspróf á Íslandi eða 1,6% af fjölda tvítugra landsmanna. Tæpum hundrað árum síðar eða árið 2016 var hlutfallið 73,7% en það ár brautskráðust 1.935 konur á móti 1.486 körlum.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands sem skoðar söguna síðustu 100 ár í tilefni af því að nú er öld liðin frá því Ísland öðlaðist fullveldi.

Skólaárið 1917–1918 voru karlar 92% brautskráðra stúdenta. Skólaárið 1974–1975 var hlutfall kynjanna orðið nokkuð jafnt en varð síðan hærra hjá konum 1977–1978. Allar götur síðan hafa fleiri konur verið brautskráðar en karlar. Skólaárið 2015–2016 voru 57% nýstúdenta konur og 43% karlar.