Konur sem vilja segja frá kynferðisofbeldi þurfa gríðarlegt traust: „við það að segja frá geturðu upplifað létti, en líka skömm og svik“

Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir standa fyrir námskeiðinu „Að segja frá“ sem hefst í næstu viku og er fyrir konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Námskeiðið er á vegum Rótarinnar og á því er konum veittur stuðningur og þær búnar eftir bestu getu undir það að segja frá ofbeldinu. Í Mannlega þættinum var rætt við Guðrúnu og Kristínu um námskeiðið og hugmyndir þeirra um úrræði.

„Við höfum verið að ýta á aukið gæðastarf í meðferðastarfi, ýta á stjórnvöld að styrkja stefnumótun í þessum málaflokki, og koma inn með öðruvísi hugmyndir en áður hafa ríkt um áfengis- og fíknivanda,“ segir Kristín I. Pálsdóttir talskona Rótarinnar í viðtalinu.

Rótin er félag kvenna með áfengis- og fíknivanda sem var stofnað fyrir rúmlega sex árum síðan.

Hugmyndafræði Rótarinnar er meðal annars sú að þegar kemur að fíknivanda sé sókn fólks í áfengi og eiturlyf ekki vegna innbyggðs galla heldur sé um að ræða afleiðingu af áföllum eða illri meðferð. Í tilfelli kvenna sé það oft kynferðisofbeldi í æsku.

„Upphaflega erum við að hugsa um konur sem fara í meðferð, að það sé eitthvað annað í boði. En síðan í okkar námskeiðum erum við ekki endilega að spyrja „hvað er að þér“, heldur miklu frekar „hvað kom fyrir þig?“ Þaðan er líka nafnið komið Rótin, hvað liggur að baki,“ segir Guðrún og segir hún einnig að áfengis og fíknivandi sé yfirleitt afleiðing djúpstæðari vanda.

„Við hugsum þetta fyrir þær sem langar að segja frá kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, hvort heldur er innan fjölskyldunnar, eða láta vinahópa vita eða samstarfsfélaga. Þegar þú ert að vinna í afleiðingum geturðu verið utan við þig, miklar skapsveiflur eða veikindi. Þá vilja margar nota tækifærið til að skýra frá hvað þú ert að gera,“ segir Guðrún.

Námskeiðið segja þær vera byggt upp í kringum það að undirbúa konurnar frá því að segja frá, hverjum þær vilji segja frá, umhverfið og eftirmálin.

Kristín segir að samkvæmt nýlegri rannsókn á konum í meðferð hafi helmingur þeirra orðið fyrir kynferðisofbeldi á barnsaldri.

„Svo fer fólk út í óheilbrigð bjargráð eins og fíkn, þetta tengist inn á átröskun, og ýmsa skaðlega þráhyggjuhegðun. Það þarf yfirleitt gríðarlegt traust fyrir þennan hóp til að segja frá. Það er það sem við erum að skapa með þessu námskeiði og vinnu. Fyrir þær sem ekki treysta sér til að segja frá í fjölmiðlum eða Facebook.“

Segja þær að hafa þurfi margt í huga áður en greint sé frá ofbeldinu og að frásögn geti til að mynda snúist gegn þolandanum.

„Þú þarft að velta fyrir þér hvað er það versta sem gæti gerst, hvað er það besta, hvað vonastu til að fá út úr þessu? Og geturðu lifað með hvoru tveggja? Við það að segja frá geturðu upplifað létti, en líka skömm og svik, og það er mikilvægt að ræða þær mismunandi tilfinningar sem gjósa upp.“

Segja þær mikilvægt fyrir konur að hafa stuðningshóp í kringum sig þegar sagt er frá ofbeldinu og að þann stuðning geti þær fengið á námskeiðinu. Taka þær þó fram að þrátt fyrir að konur taki þátt í námskeiðinu sé engin krafa gerð á þær að segja frá ofbeldi sínu frekar en þær vilji.