Könnun: d-listinn fallinn í eyjum

Sjálfstæðisflokkurinn er að missa meirihlutann í bæjarstjórn Vestmannaeyja.

skoðanakönnun Fréttablaðsins gefur Sjálfstæðisflokknum rúmlega 41 prósent fylgi og þrjá bæjarfulltrúa af sjö. Nýr framboðslisti fólks úr Sjálfstæðisflokknum sem kallast Fyrir Heimaey, fengi um 32 prósent og tvo fulltrúa. Íris Róbertsdóttir fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins leiðir nýja framboðið, sem spratt út frá óánægju með prófkjörsmál.

Eyjalistinn, sameinaður listi Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokks, Samfylkingar, Vinstri grænna og óháðra fengi rúm 25 prósent og tvo fulltrúa.

Elliði Vignisson bæjarstjóri er í fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Í samtali við Fréttablaðið í dag segist hann ekki reikna með kjöri sem bæjarfulltrúi, en vera bæjarstjóraefni flokksins engu að síður. Könnunin var gerð í gær, 23. apríl.