Kolbrún slátrar manninum: feitur, latur, kvíðinn og á „vini“ sem hann þekkir ekkert - það sem er bannað að ræða

Kolbrún Bergþórsdóttir fer hörðum orðum um nútímamanninn í pistli í Fréttablaðinu. Kolbrún segir að nútímamaðurinn kunni sér ekki hóf, hann er átvagl, hann er feitur og hann er latur og ekki bara það, hann er  haldinn kvíða, streitu þunglyndi. Nútímamaðurinn getur ekki verið án síma og vorkennir sjálfum sér í gríð og erg og tekur síðan töflu til að geta sofnað. Hann getur ekki ferðast nema á bíl og eyðir ógrynni tíma í snjalltæki og á fjölda vina á Facebook sem hann hittir aldrei og suma þekkir hann ekkert, vinunum er safnað til að fá fleiri læk, því það er að mati nútímamannsins uppskrift að hamingju. En lækning er til og lækningin við þessu öllu er að mati Kolbrúnar nokkuð einföld. Farðu í göngutúr.

Kolbrún segir: „Nútímamaðurinn kallar yfir sig alls kyns böl með kæruleysislegu líferni sínu. Hann kann sér ekki hóf og hámar í sig mat með þeim afleiðingum að hann tútnar út. Þannig er offita böl víða um heim, ekki síst meðal barna og unglinga. Þennan vanda má ekki alltaf ræða því um leið og ákveðnir einstaklingar heyra orðið offita rísa þeir upp og æpa: Fitusmánun! Það gól breytir samt ekki óþægilegum staðreyndum.“

Þá segir Kolbrún að nútímamaðurinn sé latur að hreyfa sig og ef hann kemst hjá því að ganga stekkur hann upp í bílinn sinn, sem hann elskar.

„Hann er síðan háður alls kyns tækjum og tólum og fyllist gríðarlegum aðskilnaðarkvíða gleymi hann að taka með sér ástvin sinn, símann. Þar sem nútímamaðurinn sækir alla jafna ekki í frið og ró þá er ekkert einkennilegt að hann skuli þjást af streitu, kvíða og þunglyndi og leggist reglulega undir sæng til að vorkenna sjálfum sér sárlega – og taki síðan töflu til að ná að festa blund.“

Þá segir Kolbrún að nútímamaðurinn flæki hlutina. Kolbrún segir:

„Hann eyðir ógrynni af tíma í snjalltækjum og á fjölda vina á Facebook sem hann hittir nær aldrei. Á sumum svokallaðra vina sinna þar kann hann lítil sem engin skil. Hann vill bara hafa sem flesta þarna svo hann geti safnað lækum og sannfærst um eigið ágæti. Skrýtið samt að hann skuli telja allt þetta uppskrift að hamingju.“

Þá er komið að lækningunni. Kolbrún segir göngutúra vera vanmetna. Þeir kveiki nýjar hugmyndir og lyfti andanum og séu besta meðalið.

„Ef einhver skyldi hafa gleymt því skal rifjað upp að þeir fara þannig fram að einstaklingur gengur um leið og hann virðir fyrir sér umhverfið og horfir jafnvel til himins. Hann finnur hvernig þreyta hverfur og nýjar hugmyndir kvikna. Honum líður alveg ljómandi og víst er að hann þarf enga töflu til að festa svefn um kvöldið. Temji hann sér þennan lífsstíl og gæti um leið hófs í mataræði og helli ekki í sig áfengi eða seilist í dóp þá er ansi ólíklegt að hann muni þjást af fimm krónískum sjúkdómum um og eftir sjötugt, eins og hendir svo marga.“