Kolbrún: „ósvífnin er algjör“

„Almenningur í landinu hefur sannarlega búið ansi lengi við það að launahækkanir renni beint út í verðlagið og verði að engu. Forsvarsmenn fyrirtækja sem kokhraustir hafa undanfarið tilkynnt um verðhækkanir á vörum sínum virðast sannfærðir um að þeir komist upp með þær. Sennilega hafa þeir í huga að svona hafi þetta nú lengi verið og þannig skuli það áfram vera. Kjarasamningar sem miða að því að bæta kjör þeirra sem lægstu launin hafa skulu gerðir að engu. Ósvífnin er algjör.“

Þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður í pistli á Fréttablaðinu. Þá segir Kolbrún það vera einkennilegt að forsvarmenn sumra fyrirtækja hafi ákveðið að „skella sér í hækkanir á vörum sínum virðast alls ekki hafa neytendur í huga.“ Kobrún segir:

„Það er eins og þeir líti á neytendur sem viljalausa einstaklinga sem láti bjóða sér allt. Sannarlega er ekki hægt að ætlast til að allir forsvarsmenn fyrirtækja starfi eins og hinn knái framkvæmdastjóri IKEA, Þórarinn Ævarsson, sem hefur talað máli neytenda svo hraustlega að þeim forstjórum sem hafa græðgishugsun að leiðarljósi þykir nóg um, meðan almenningur í landinu tekur erindi hans fagnandi. IKEA nýtur velvilja meðal almennings og það er ekki síst Þórarni að þakka.“

Þá segir Kolbrún:

„Það á ekki að vera sjálfsagt mál að sprengja upp verð til þess eins að græða sem mest. Fyrirtæki sem það gera fá ekki á sig gott orð, þótt þar á bæjum hagi menn sér eins og þeir telji sig geta komist upp með hvað sem er.“