Kolbrún: „í dag á slíkt kvak lítinn hljómgrunn meðal landsmanna“

„Það er sannarlega rétt að gleðjast yfir því að Ísland skuli vera herlaust land því slíkt er ekki sjálfgefið í hættulegum heimi. Um leið er brýn nauðsyn að Ísland sé hluti af varnarbandalaginu NATO. Óskin um að Ísland gangi úr NATO er óraunhæf, enda draumsýn og yrði hún einn daginn að raunveruleika byði það alls kyns hættum heim.“

Þetta skrifar Kolbrún Bergþórsdóttur í leiðara Fréttablaðsins í vikunni. Þar gagnrýnir hún Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir tilraunir hennar til að útskýra  afstöðu Vinstri grænna til Atlantshafsbandalagsins í spjallþættinum Hardtalk á BBC á dögunum.

Kolbrún segir Katrínu að öðru leyti hafa verið mælska, rökfasta, skynsama og jarðbundna og með sterka útgeislun í viðtalinu. „Einmitt þannig eiga forsætisráðherrar helst að vera,“ segir hún.

Kolbrún bendir á að Katrín hafi nefnt að Ísland væri land án hers. „Þetta veit íslenska þjóðin en er þó yfirleitt ekkert sérstaklega að leiða hugann að því. Henni þykir bæði sjálfsagt og eðlilegt að eiga ekki her. Langflestir landsmenn gera sér þó um leið grein fyrir mikilvægi þess að vera í varnarbandalaginu NATO. Hér á árum áður var sungið af krafti gegn þessu bandalagi: Ísland úr NATO, en í dag á slíkt kvak lítinn hljómgrunn meðal landsmanna. Innan Vinstri grænna kyrja menn þó enn þennan söng sem hljómar eins og slæm tímaskekkja.“

Hún telur varnarbandalagið vera mikilvægt og segir að Katrínu hafi mistekist að útskýra afstöðu VG. „Jafn skelegg og skörp og Katrín Jakobsdóttir er þá fór ekki hjá því að hún lenti í nokkrum vandræðum með að útskýra fyrir spyrjandanum í Hardtalk afstöðu Vinstri grænna til NATO. Andstaða flokksins við þetta mikilvæga varnarbandalag er svo mikil tímaskekkja að það er nánast ómögulegt að útskýra hana þannig að hún hljómi skynsamlega. Forsætisráðherra reyndi það en tókst ekki. Málstaðurinn sem hún reyndi að verja er svo laus við allt raunsæi að hann getur ekki hljómað eins og raunverulegur valkostur fyrir litla þjóð í norðri.“

„Stjórnvöldum ber skylda til að tryggja öryggi og varnir lands síns og þjóðar sinnar. Lítil þjóð sem vill ekki eiga her verður að eiga samvinnu við önnur ríki sem eru henni velviljug. Ísland á því heima í NATO,“ segir Kolbrún einnig.

Hún bætir við að hugmyndir VG um að kveðja bandalagið byggi á rómantískri draumsýn um heim þar sem allir séu vinir og ekkert ami að. „Hver sá sem horfir á sjónvarpsfréttatíma veit að heimurinn er ekki þannig. Þetta ættu Vinstri græn að gera sér ljóst. Samt eru flokksmenn enn að daðra við úrsögn úr NATO – stefnumál sem engin ríkisstjórn á Íslandi mun nokkru sinni samþykkja.“

„Sennilega er til of mikils mælst að Vinstri græn sýni raunsæi og kveðji þetta óskynsamlega stefnumál sitt. Þau vilja örugglega kyrja áfram á flokksfundum: Ísland úr NATO, og það svo sem flestum að meinalausu. Í ríkisstjórnarsamstarfi hljómar slíkt tal hins vegar eins og óráðshjal. Enginn á að gera sér betur grein fyrir því en forsætisráðherra landsins,“ segir Kolbrún að lokum.