Kolbeinn í áfalli í nóatúni: biðst afsökunar 24 árum síðar – rifrildi við móður setti af stað óvenjulega atburðarás

Kolbeinn Marteinsson hefur ákveðið að biðja starfsfólk sem starfaði í verslun Nóatúns í Hamraborg fyrir 24 árum afsökunar. Fyrir því eru ástæður sem verða ekki raktar strax, en rifrildi við móður setti af stað óvenjulega atburðarás, en við ætlum að láta pistil Kolbeins, sem hann birtir í Fréttablaðinu, njóta sín.

Kolbeinn hafði flutt í foreldrahús árið 1995 eftir þvæling erlendis. Stefnan var að vinna af krafti yfir veturinn, safna peningum og halda aftur út. Kolbeinn segir:

„Eitt hádegið fór ég í mat heim í Kópavoginn. Þar var enginn friður og mér lenti eitthvað saman við móður mína og úr varð að ég rauk út og ákvað að bíða félaga míns í Hamraborginni. Þar var skítkalt og því var ráðið að bíða í verslun Nóatúns.“

Í verslun Nóatúns hafði verið staflað mannhæðarháum píramída af Sunquick-appelsínuþykkni. Hver flaska af þykkni var inni í glerkönnu. Og Kolbeinn gekk utangátta beint inn í appelsínuþykknispíramídann. Kolbeinn segir:

„Fyrst riðlaðist hann til á meðan ég reyndi að afstýra stórslysi og svo byrjuðu flöskurnar innan í könnunum að hrynja niður og pýramídinn féll í gólfið með háværum brothljóðum. Allt gerðist þetta óvenjuhægt fyrir augum mínum líkt og í draumi. Næst heyrði ég einhvern segja: „Já, hann gekk bara beint á þetta eins og hann væri á einhverjum lyfjum.““

Kolbeinn lýsir hvernig upp gaus stæk appelsínulykt, sírópspollurinn breiddi úr sér, raddirnar urðu hærri og fólk flykktist forvitið að. Kolbeinn stóð sem lamaður og hitnaði í framan. Það var aðeins tvennt í stöðunni, bjóða fram aðstoð sína eða flýja. Og Kolbeinn valdi síðari kostinn. Hann segir:

„Þetta hafði langvarandi afleiðingar. Ég fór ekki í verslun Nóatúns í Hamraborg í mörg ár á eftir. Og enn þann dag í dag þegar ég finn lykt af appelsínuþykkni upplifi ég aftur þessa lamandi skelfingu og heyri flöskur brotna í höfði mínu. Starfsfólk Nóatúns í Hamraborg árið 1995 bið ég afsökunar, 24 árum síðar.“