Kjóll bjartar er kjánahrollur sumarsins

Það er engin tæpitunga töluð í Ritstjóraþætti kvöldsins, þar sem útvarpsmennirnir Frosti Logason og Máni Pétursson láta vaða á súðum um helstu fréttamál sumarsins, en þessir vinsælu fréttaaskýringaþættir Hringbrautar eru að hefja göngu sína á ný eftir sumarleyfi.

Costco átti fjölmiðlasviðið í sumar og fékk alla þá athygli sem verslunin at arna gat óskað sér. En Frosti og Máni eru ekki endilega sammála um það hversu mikið Costco skilur eftir sig í landinu, vissulega hafi búðin lækkað vöruverð í landinu og aukið samkeppni, en spurning sé hvað ágóði hennar skilar sé í ríkum mæli til samfélagsins. Allar íslenskar verslunarkeðjur hafi stutt ríkulega við margs konar samfélagsleg verkefni á undanliðnum árum, en Máni bendir á að það verði varla eða ekki í tilviki Costco sem komi hingað og fari með allan gróðann úr landi.

Kjánahrollur sumarsins er kjólamál Bjartar Ólafsdóttur, umhverfisráðherra og fær hún sæmilega á baukinn fyrir að skamma feðraveldið fyrir afglöp sín! Og svo er mál Roberts Downey, áður Róberts Árna Hreiðarssonar brotið til mergjar, ásamt því sem ástæður lélegs fylgis ríkisstjórnarinnar er greint í þaula, en þar vegur þyngst, segja þeir bræður að stór meirihluti þjóðarinnar sé orðinn hundleiður á að hafa Sjálfstæðisflokkinn við völd.

Að lokum er fjallað um þann tvískinnung sem viðgengst í áfengisauglýsingum hér á landi; ef fjölmiðillinn er íslenskur má hann alls ekki fjalla um áfengi, en ef hann er útlenskur má hann ausa úr vínskálum sínum eins og enginn sé morgundagurinn, án þess að eiga á hættu að verða refsað fyrir tiltækið með háum fjársektum, sem einmitt er hlutskipti innlendu miðlanna, svo sem enn ein dæmin sanna.

Ritstjórarnir byrja klukkan 21:00 í kvöld.