Kjartan hjá omnom elskar þessar litlu jóla madeleines sem eru komnar í hátíðarbúning að hans hætti

Aðventan er heillandi tími og margir eiga góðar minningar tengdar aðventunni sem hlýja og gefa. Aðventan er tími til að njóta, skapa og útbúa ljúffengar kræsingar, líka tími til að búa til minningar með komandi kynslóðum.  Sjöfn Þórðar heimsótti Kjartan Gíslason kokk, annan af stofnendum súkkulaðigerðarinnar Omnom og eiganda og bað hann um að svara nokkrum spurningum tengdum aðventunni og undirbúningi jólanna. Jafnframt fékk Sjöfn Kjartan til að ljóstra hulunni af sinni uppáhalds köku sem hann bakar í aðventunni. Kjartan er kokkur og einstaklega laginn við bakstur, hann bakar og eldar af ástríðu og nýtur þess að finna ný og spennandi brögð sem gleðja bragðlaukana og matarástarhjartað.

Bakar þú mikið?

„Ég baka aðallega í vinnunni og mjög mikið þegar nær dregur jólum. Við erum með föstudagshádegisverð hérna í Omnom, þar sem starfsfólk skiptist á að elda og ég reyni oftast að baka þá eitthvað líka.“

Áttu þér uppáhalds köku sem þú bakar í aðventunni og er saga bak við hana?

„Ég var að vinna á Michelin-stjörnu vetingastaðnum Lea Linster í Luxembourg fyrir þónokkrum árum og við bárum alltaf fram konfekt með kaffinu og Madeleines. Madeleines kökurnar sem bakaðar  voru hjá Leu voru gerðar með brúnuðu smjöri, sem gaf þeim mjög einkennandi hnetukeim. Ég gjörsamlega elska þessar litlu kökur og fyrir þessa uppskrift er ég búin að setja þær í hátíðarbúning og bæta við kakói og appelsínubörk. Það má gera deigið fram í tímann og geyma í ísskápnum í allt að fjóra daga.  Þær eru bestar nýbakaðar en það má frysta þær og hita upp.“

Er mikið haft fyrir jólunum á þínu heimili?

„Ég reyni að setja upp skreytingarnar um leið og það er orðið „löglegt“, því það er gott að fá smá ljós í myrkrinu.   Svo finnst mér gaman líka að búa til heimalagaðar jólagjafir, þó oftast eitthvað konfekt, stundum paté og í ár verður það eitthvað drykkjarhæft,“ segir Kjartan er spenntur á svipinn.

Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?

„Samverstundir með fólkinu mínu og af sjálfsögðu maturinn.  Ég og bróðir minn förum sem oftast á rjúpu og er hún órjúfanleg hefð sem við njótum um jólin.  Svo finnst mér alltaf gaman að ná allavegana einni bók í kósýheitum.“

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?

„Já, það eru lítil leirhjörtu með rauðum borða sem Magga frænka, móðursystir mín,  bjó til og gaf okkur systkinum alltaf á hverju ári. Þau fá alltaf sitt pláss um hver jól.“ 

Áttu þér uppáhalds jólalag?

„Átta ára ég myndi segja Glámur skrifar jólasveiningum en Hátíðarskap með Helgu Möller, er eins og að kveikja á jólaskapinu.“

Heldur þú í hefðir á í jólaundirbúningi og / eða um jólin ?

„Baka, elda, þrífa.  En það er kannski einn mjög sérstakur siður sem ég hef haldið óslitið í næstum 25 ár, en það er að horfa á Reservoir Dogs á aðfangadag, get ekki útskýrt það,“ segir Kjartan og hlær.

Um Kjartan - uppáhaldslistinn: 

Maki/fjölskylda:  Ókvæntur, dýra-og barnslaus, en held upp á ketti.

Uppáhalds jólamynd:  Christmas Vacation.

Ómissandi á aðventunni:  Kerti.

Jólamatur:  Hamborgarhryggur, rjúpur og graflax.

Jóladrykkur:  Appelsín.

Hvít eða rauð jól:  Hvít, alltaf.

Hér sviptir Kjartan hulunni af hinum leyndardómsfullu Jóla Madaleines sem enginn verður svikinn af.

Jóla Madaleines 

250 g smjör

250 g flórsykur

100 g möndluduft

25 g kakóduft

7 stk. eggjahvítur

75 g hveiti

Börkur af einni appelsínu

Byrjið á því að bræða smjörið í potti, við miðlungshita og hitið þar til það fer að sjóða.  Haldið áfram að elda smjörið og hrærið þar til smjörið fer að brúnast og freyða. Takið þá smjörið af hitanum og leyfið því að kólna.  Sigtið saman flórsykur, möndluduft og kakóduft.  Blandið vel saman við eggjahvíturnar. Blandið síðan saman við smjörið.  Bætið loks hveitinu og appelsínuberkinum við.  Kælið í eina klukkustund áður en sett er í formin.  Hitið ofninn í 170°C.  Smyrjið Madaleines-form með smjöri og stráið með hveiti ( Madaleinesform fæst í meðal annars í Söstrene Gröne og best er að nota form úr járni).

Sprautið deiginu í formin, passið að fylla þau ekki alveg, þar sem kökurnar munu blásast út um helming.  Bakið í ofninum í um það bil 8-10 mínútur, ef formin eru stór gæti þurft lengri tíma, alveg upp í 15 mínútur.  Snúið úr formunum og leyfið að standa í 10 mínútur. Berið fram með heitu kakó.

Njótið aðventunnar.