Kjartan Hafsteinn er látinn

Kjartan Hafsteinn er látinn

Kjartan Hafsteinn Guðmundsson blikksmíðameistari fæddist á Búðum í Hlöðuvík á Hornströndum 18. Júní 1923. Hann lést á dvalarheimilinu Höfða 29. maí 2019.

Kjartan kvæntist 4. febrúar 1950 Auði Elíasdóttir frá Þingeyri í Dýrafirði, f. 28.8. 1930, d.28.6. 2012. Eignuðust þau fjögur börn og átti Kjartan fyrir einn son. Greint er frá andláti Kjartans í Morgunblaðinu.

Æskustöðvar Kjartans voru Hlöðuvík á Hornströndum og bar hann alltaf afar sterkar taugar til heimahaganna. Kjartan fluttist alfarinn til Reykjavíkur 1941 og hóf síðar nám í blikksmíði og útskrifaðist úr Iðnskóla Reykjavíkur 1947.

Hann var þá við störf hjá Blikksmiðju Reykjavíkur. Kjartan fluttist á Akranes 1958 og stofnaði þar Blikksmiðju Akraness ásamt svila sínum, Þorsteini Ragnarssyni. Þeir ráku fyrirtækið til 1967. Kjartan starfaði síðan hjá Þorgeir & Ellert, um tíma síðan lá leiðin í Sementsverksmiðjuna. Hann starfaði hjá Íslenska járnblendifélaginu frá 1979 til 1995 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Kjartan tók þátt í margvíslegum félagsstörfum og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni, þar með talið formennsku í Félagi blikksmiða í Reykjavík, Iðnaðarmannafélagi Akraness, Sveinafélagi málmiðnarmanna Akranesi og var aðaltrúnaðarmaður starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins. Hann sat í stjórn Félags eldri borgara og var formaður Stangaveiðifélags Akraness. Kjartan tók ungur þátt í starfi ungra jafnaðarmanna og var mikill jafnaðarmaður alla tíð. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokk-inn.

Hann var hagmæltur eins og margir af Hælavíkurættinni og eru til ótal tækifærisvísur og ljóð eftir hann. Kjartan var sæmdur fálkaorðunni 1995 fyrir félagsstörf. Hér fyrir neðan fylgja tvö síðustu erindin úr ljóði Kjartans, Æskuminning:

Á Horn­strönd­um var líf mitt ljúft

langa sum­ar­daga.

Að vetri stund­um veður hrjúft

var nú göm­ul saga.

Aldraður nú orðinn er,

enn þá læt mig dreyma.

Hug­ur­inn því frjáls nú fer

í fagra vorið heima.

Nýjast