Kjarninn á hringbraut í kvöld kl. 21.00

Málefni ferðaþjónustunnar eru til umfjöllunar í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut í kvöld. Þar er rætt um stöðuna í ferðaþjónustunni, áskoranir og tækifæri, og þá ekki síst í samhengi við mikla gagnrýni á áætlaða hækkun virðisaukaskatts á greinina. 

Þórunn Elísabet Bogadóttir og Þórður Snær Júlíusson eru stjórnendur sjónvarpsþáttarins Kjarnans, sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 21, og þau ræða þá gjörbreyttu stöðu sem er uppi í ferðaþjónustunni nú miðað við fyrir örfáum árum. Ísland hefur á fáum sviðum náð að halda í við breytingarnar og aukninguna. Tekjumöguleikarnir sem ríkið hefur af ferðamannastraumnum, ekki síst til þess að standa straum af innviðauppbyggingu, koma við sögu, og þeirri spurningu velt upp hvort ekki hefði átt að fara í miklu meiri innviðauppbyggingu fyrir mörgum árum síðan. 

Gestur þáttarins er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, og hún er meðal annars spurð út í gagnrýnina á virðisaukaskattshækkunina, sem hefur ekki síst komið úr hennar eigin flokki. Þórdís segist hafa búist við gagnrýninni og hún komi ekki á óvart. Ef hún hefði haldið að hún gæti farið í pólitík til að taka bara vinsælar og skemmtilegar ákvarðanir hefði hún átt að finna sér eitthvað annað að gera. Fjármálaáætlunin geri ráð fyrir hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna á næsta ári og ekkert hafi komið fram um annað en að það eigi að standa.