Kerfisbreytingar? nei, takk!

Ef horft er til þess kjörtímabils sem senn er að baki - og þess sem á undan fór, hvað þá tímans þar á undan - má gera ráð fyrir því að óverulegar kerfisbreytingar verði gerðar hér á landi á komandi árum. Raunar eru meiri líkur en minni á að engar breytingar verði gerðar.

Auðlindirnar í sjónum munu áfram vera á brunaútsölu, fáeinum auðmönnum til hagsældar.

Auðlindirnar í viðkvæmri náttúru landsins munu áfram verða aðgengilegar fyrirtækjum og fólki án gjalds fyrir ágang og óþrifnað.

Vegir landsins munu áfram verða slysagildrur með tugum einbreiðra brúa á hringveginum á meðan ágóði ferðaþjónustunnar fer í einkavasa.  

Firðirnar fyrir vestan og austan verða áfram í boði fyrir slikk svo þar megi stunda áhættusamt eldi í einstakri náttúru villta laxastofnsins.

Hrein og græn raforka verður áfram seld á undirverði til stóriðjunnar í skiptum fyrir einhver störf og stuðnings til karlakóra í plássunum.

Landbúnaðarkerfið verður áfram rekið sem fátæktargildra fyrir bændur með takmörkuðu vöruframboð fyrir neytendur í landinu.

Krónan verður áfram með belti og axlabönd svo hún geti arðrænt íslensk heimili og einkum og sér í lagi ungt fólk í húsnæðisharki.

Heilbrigðiskerfið verður fjársvelt og daður við einkarekstur tekinn fram yfir lífsnauðsynlega almannaþjónustu um allt land.

Skólakerfið verður látið sitja á hakanum svo þess munu áfram verða dæmi að innkaup framhaldsskóla verði bönnuð með öllu.

Og fötluð börn í skólum landsins og tómstundaþjónustu verða afgangsstærð sem fyrr í forríku landi.

Hér væri hægt að halda upptalningunni áfram - og raunar lengi vel, en í ljósi reynslunnar - og gildir þar einu hvaða flokkar sitja við völd á Alþingi eða í sveitarstjórnum; stóru línurnar eru og verða þær sömu; það verður áfram vitlaust skipt ... þjóðarauðurinn mun áfram gagnast fáum á kostnað hinna mörgu. 

Jafnt vinstri flokkar sem þeir hægri munu áfram greiða atkvæði með eða sitja hjá þegar á að breyta ómanneskjulegu kerfi - ef menn á annað borð mæta þá til atkvæðagreiðslunnar.  

Og það verður sumsé kosið eftir mánuð. En fyrir hvern? Og til hvers?