Katrínu var nauðugur einn kostur

Jón Kaldal og Þorbjörn Þórðarson mæta í Ritstjórana í kvöld:

Katrínu var nauðugur einn kostur

Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs var nauðugur einn kostur í þeirri stöðu sem upp var komin í íslenskri pólitík eftir þingkosningarnar í síðasta mánuði, að halla sér að gömlu valdaflokkunum, Framsókn og íhaldinu.

Þetta er mat Þorbjörns Þórðarsonar, fréttamanns sem er annar tveggja viðmælenda Sigmundar Ernis í Ritstjóraþætti kvöldsins á Hringbraut, en bæði hann og Jón Kaldal, sem er þriðji maðurinn í þættinum, telja það vera pólitískt lífsspursmál fyrir Katrínu að komast í stjórn til að sýna hvers megnug hún er með valdataumana í hendi; seta í enn einni stjórnarandstöðunni hafi ekki verið kostur í stöðunni - og eftir að vinstritilraunin hafi mistekist, sem kannski var aldrei raunhæfur, hafi aðeins einn kostur blasað við.

Aðstæður eru enda ákjósanlegar til að brúa gjána í íslenskum stjórnmálum, að mati þeirra félaga, en það verði litlu breytt á vaktinni fram undan, enda hægfara afturhaldsstjórn að taka við völdum, ef að líkum lætur, sem viðhaldi sama kerfi og verið hefur við lýði; hún breyti engu, en rói ef til vill stjórnmálin hér á landi undir friðsamri forystu Katrínar Jakobsdóttur.

Ritstjóarnir byrja klukkan 21:00 í kvöld.

Nýjast