Katrín: mörg mál reynst ríkisstjórninni erfið

Draumur forsætisráðherra er að eftir þessa ríkisstjórn muni liggja plan um hvernig Ísland ætlar að takast á við þær breytingar á samfélaginu sem muni fylgja fjórðu iðnbyltingunni. Kjarninn greinir frá.

Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra er ánægð með þann árangur sem náðst hefur í vinnumarkaðs­mál­um, meðal ann­ars með gerð hinna svoköll­uðu lífs­kjara­samn­inga, og í hvaða far­veg þau hafa fallið á þessu kjör­tíma­bili. Hennar draumur er að það verði hægt að taka þetta lengra með upp­setn­ingu þjóð­hags­ráðs aðila vinnu­mark­að­ar­ins, rík­is, sveit­ar­fé­laga og sveit­ar­fé­laga sem eigi að fjalla um bæði félags­legan og efna­hags­legan stöð­ug­leika.

Þá er hún einnig ánægð með hversu vel hefur tek­ist til við að koma loft­lags­málum á dag­skrá og fjár­magna aðgerðir vegna þeirra. „Það er ekki nóg að gert. Ég veit það. En ég er samt ánægð með að stór skref hafa verið stigin hingað til.“

Þetta er meðal þess sem Katrín er ánægð­ með að rík­is­stjórn hennar hafi náð fram á þeim 16 mánuðum sem hún hefur starf­að. Katrín var gestur Þórðar Snæs Júl­í­us­son­ar, rit­stjóra Kjarn­ans, í frétta- og umræðuþætt­inum 21 á Hring­braut á miðvikudaginn var, þar sem hún ræddi meðal annars rík­is­stjórnarsam­starf­ið.

Þeir flokkar sem mynda núver­andi rík­is­stjórn, Vinstri græn, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sjálfstæðis­flokk­ur­inn, eru mjög ólíkir flokkar með afar ólíkar stefnur og áhersl­ur. Því er um mjög óvenju­legt rík­is­stjórn­ar­sam­starf að ræða.

Aðspurð hvaða mál hafi verið erf­ið­ust við­fangs þá svar­aði Katrín ekki beint en sagði að þetta væri allt öðru­vísi reynsla en sú rík­is­stjórn sem hún sat í á árunum 2009 til 2013. Þar hafi flokkar starfað saman sem liggja mun nær hvorum öðrum, Vinstri græn og Sam­fylk­ing. „Það er allt öðru­vísi þegar ólíkir flokkar setj­ast saman og vinna í rík­is­stjórn. Það eru mörg mál sem eru okkur erf­ið. En þetta er allt ann­ars konar vinna. Maður þarf að hafa meira fyrir und­ir­bún­ingi mál­anna.“

Stefnt er að því að næstu þing­kosn­ingar fari fram vorið 2021 og því er seinni hluti kjörtímabilsins handan við horn­ið. Katrín sagði að hennar draumur væri að eftir þetta kjör­tíma­bil lægi fyrir mark­verður árangur í loft­lags­málum og að íslenskt sam­fé­lag væri betur und­ir­búið undir þær miklu tækni­breyt­ingar sem eru að verða með fjórðu iðn­bylt­ing­unni:

„Minn draumur er að við verðum svo­lítið komin með planið um hvernig við tök­umst á við breyting­arn­ar.[...]Við erum auð­vitað með áætl­anir núna um að fjár­festa meira í nýsköpun og þekk­ingu. Ég lít á hvort tveggja, loft­lags­málin og tækni­breyt­ing­arn­ar, sem risa­stórt efna­hags­mál. Hvernig við getum tek­ist á við það að verða sam­fé­lag þar sem efna­hag­ur­inn hvílir á fjöl­breytt­ari stoð­um, dregið úr losun en líka um leið ekki misst sjónar á jöfn­uði og lífs­gæðum því það er alltaf hætta á því að þessar breyt­ingar muni gagn­ast fáum en ekki fjöldan­um.“

Viðtalið við Katrínu í heild sinni er að finna hér: