Karl Lagerfeld er stofnun

Álfrún Pálsdóttir var gestur í 21 í gærkvöld:

Karl Lagerfeld er stofnun

„Hvað skilur hann ekki eftir sig? Mér finnst Karl Lagerfeld vera stofnun og ég held að það hafi komið öllum algjörlega í opna skjöldu þegar hann dó, sem er mjög skrýtið þar sem hann var orðinn 85 ára gamall. Eða það var svona á reiki hvað hann var í raun og veru gamall!“ Þetta segir Álfrún Pálsdóttir, kynningarstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands og fyrrverandi ritstjóri Glamour tímaritsins.

Karl Lagerfeld, hinn goðsagnakenndi listræni stjórnandi, tískuhönnuður, listamaður  og ljósmyndari lést á þriðjudaginn, 85 ára að aldri. Hann laug reyndar lengi vel til um aldur sinn og var hugsanlega þremur árum eldri. Lagerfeld starfaði hjá Chanel í tæplega 36 ár en starfaði einnig fyrir Fendi og stofnaði sitt eigið merki, Karl Lagerfeld, árið 1984.

Álfrún var gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld, þar sem hún ræddi arfleifð Karls Lagerfeld.

„Tískuvikan í París er í næstu viku. Það er erfitt að ímynda sér tískuvikuna í París án Karls Lagerfeld. Hann er náttúrulega bara listamaður. Það sem hann setti á svið voru ekki bara einhverjir tískupallar þar sem fyrirsætur voru að labba fram og til baka. Síðustu ár hefur hann tekið yfir Grand Palais í miðri Parísarborg. Þar hefur hann búið til ótrúlegustu sviðssetningar, skúlptúra. Hann hefur komið með jökul fluttan inn frá Skandinavíu, hann hefur sett Eiffel turninn þarna upp, hann hefur verið með risastórt geimfar sem tók á loft. Þetta eru listsýningar og ég held að allir myndu einhvern tímann vilja hafa farið á sýningu sem hann stjórnaði,“ segir Álfrún.

Hún telur að það sem Lagerfeld skilur eftir sig, arfleifð hans, sé eitthvað sem fólk muni komast betur að núna.

Viðtalið við Álfrúnu í heild sinni er að finna hér:

Nýjast