Karítas Hörpu stóð ekki til boða að mæta aftur til vinnu eftir fæðingarorlof - Skellti því í „óhefðbundna starfsumsókn“

Karítas Hörpu stóð ekki til boða að mæta aftur til vinnu eftir fæðingarorlof - Skellti því í „óhefðbundna starfsumsókn“

Söngkonan Karítas Harpa Davíðsdóttir eignaðist yngri strák sinn í maí á þessu ári. Hún hafði ákveðið að taka sér stutt orlof og halda fljótt aftur til vinnu en þegar sá tími rann upp stóð það henni ekki til boða.

„Planið hafði alltaf verið að fara í stutt orlof og með góðu skipulagi halda fljótt aftur til vinnu. Þegar ég hélt að sá tími væri runninn upp, stóð það ekki til boða þar sem vinnusambandið var í formi verktöku en ekki ráðningar. Ég fékk þær upplýsingar frá „verkkaupa" að mér stæði ekki til boða að halda áfram þeim verkefnum sem ég sinnti áður en ég hóf fæðingarorlof,“ segir Karítas Harpa á Facebook síðu sinni og gaf Hringbraut góðfúslegt leyfi til þess að deila.

Vegna þessa ákvað Karítas að skella í eina „óhefðbundna starfsumsókn“ og óskar hún eftir starfi með aðstoð vina og vandamanna:

„Því hendi ég hér með út í kosmósið því að ég leita mér að vinnu, starfi, verkefnum eða öðru sem gæti flokkast undir slíkt.

Ég sit á reynslu í söng við hinar ýmsu uppákomur, framkomu, veislustjórn, dagskrárgerð, útvarpi, podcastgerð og sjónvarpi, ég ætti meira að segja að geta vippað upp eins og einu hliðar saman hliðar dansspori.

Þið megið gjarnan senda mér ábendingar í persónulegum skilaboðum nú eða auðvitað ráða mig í verkefni!“

Margir Íslendingar þekkja Karítas Hörpu úr þáttunum The Voice Ísland en hún hefur síðan þá bæði starfað í útvarpi og sjónvarpi.

Nýjast