Kári: „Með ólíkindum að fylgjast með umræðunni“

Kári: „Með ólíkindum að fylgjast með umræðunni“

Kári Stefánsson segir með ólíkindum að fylgjast með umræðunni sem hefur orðið um frumvarp um þungunarrof. Í pistli sem Kári birti á Facebook segir hann:

„Ekki má á milli sjá hvor hópurinn hefur tjáð sig skringilegar, þeir sem styðja frumvarpið eða þeir sem á móti því eru. Fóstureyðingar eru óæskilegar og ljótar og svo sannarlega ekki góður getnaðarvarnarkostur. Við höfum hins vegar tekið þá afstöðu sem samfélag að leyfa þær og virða þann rétt konunnar að ákveða hvort hún gengur með fóstur innan í sér og leyfir því að þroskast að því marki að það fæðist sem barn. Þeir sem eru á móti frumvarpinu virðast vera á þeirri skoðun að það sé í lagi að framkvæma fóstureyðingu við 12 viku en með öllu óásættanlegt við lok 22. viku og röksemdin er til dæmis sú að þá sé fóstrið orðið svo þroskað að það sé í það minnsta nálægt því að geta lifað utan móðurkviðar. Þessi rösksemd fellur um sjálfa sig ef við leyfum okkur þann munað að krefjast skilgreiningar á því hvað „að geta lifað utan móðurkviðar“ þýðir. Yngstu fyrirburarnir sem eru í raunréttri utanlegsfóstur geta því aðeins lifað að nútíma tækni geti komið í staðinn fyrir móðurkviðinn. Þeir geta ekkert af sjálfum sér. Ef við föllumst á að það fylgi því óskilyrtur réttur til lífs sem geri fóstureyðingar óásættanlegar að fóstur sé komið á það stig að það sé hægt að koma því til manns með hjálp nútíma tækni þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að það á við um frjóvgað egg. Með nútíma tækni má koma frjóvguðu eggi til manns, án aðkomu konunnar sem bjó til eggið eða mannsins sem lagði að mörkum sáðfrumuna sem frjóvgaði það“ segir Kári.

Hann heldur áfram og bendir á að í umræðunni hafi álit sérfræðinga og lækna verið mikið notað og markast afstaða lækna annars vegar af þekkingu þeirra og faglegri getu og hins vegar samhygð.

„Þeir sem vilja að frumvarpið verði að lögum leggja svo áherslu á að fæðingarlæknar og samtök þeirra styðji frumvarpið og láta að því liggja að að afstaða læknanna byggi á einhvers konar merkilegum fræðilegum grunni sem er fyrra. Afstaða lækna til fólks sem til þeirra leitar markast annars vegar af þekkingu þeirra og faglegri getu og hins vegar samhygð og af þessu tvennu er samhygðin alltaf nauðsynleg en þekking og fagleg geta bara oftast.

Það er ljóst að stuðningur fæðingarlækna við frumvarpið á rætur sínar í samhygð með konum sem bera fóstur sem þær vilja ekki í sínum líkama. Þessi samhygð er birtingarmynd á því fallega í stétt sem vinnur við að koma nýjum einstaklingum inn í okkar harða heim og er því starfs síns vegna líklegri en aðrar stéttir til þess að skynja og skilja það ljóta við fóstureyðingar.

Fóstureyðingar eru óæskilegar og ljótar en við sem samfélag erum á þeirri skoðun að réttur kvenna til þess að ráða líkama sínum sé slíkur að við verðum að leyfa þær og að angist þeirra sem ganga með fóstur sem þær vilja ekki sé slík að það væri glæpur að gera það ekki. Aðferðin til þess að minnka líkur á því að fóstureyðingar séu framkvæmdar seint á meðgöngu, ef það er markmið í sjálfu sér, væri að bæta aðgengi að fóstureyðingum og ráðgjöf í tengslum við þær. Síðan held ég að það væri mun eðlilegri vettvangur fyrir þá sem bera mannréttindi þeirra yngstu í okkar samfélagi sér fyrir brjósti að beina sjónum sínum að þeim sem eru þegar fæddir í þennan heim og kalla eftir námskeiðum fyrir verðandi foreldra, betri og ókeypis leikskólum, meiri fjárfestingu í grunnskólum, aðhlynningu barna sem eiga í erfðileikum með málþroska og svo mætti lengi telja.

Það er að vissu leyti fáránlegt að halda líta svo á að baráttan sé fyrir réttindum fóstra sem er skilgreind á grundvelli trúarofstækis eða siðfræðilegs moðreiks sem byggir á hreinum misskilningi á líffræði lífs og dauða.“

Nýjast