Kanna umfang matarsóunar á íslandi

Umhverfisstofnun mun í næstu viku hrinda af stað ítarlegri rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi árið 2019. Þá mun Gallup hefja úthringingar fyrir hönd stofnunarinnar, þar sem ríflega 1.000 heimila lenda í slembiúrtaki og heimilisfólk verður beðið um að taka þátt í rannsókninni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Þátttakendur verða beðnir að vigta mat og matarúrgang sem fer til spillis á heimilinu í eina viku og skrá inn í gagnagátt sem vistuð er á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Síðar verður hringt í fyrirtæki, einnig samkvæmt slembivali.

Umhverfisstofnun stóð fyrir sambærilegri rannsókn árið 2016 og er rannsóknin í ár gerð með styrk frá Evrópsku hagstofunni (EUROSTAT). Tilgangurinn með rannsókninni er að afla hagtalna um umfang matarsóunar á Íslandi.

„Umhverfisstofnun vonar að sem flestir sjái sér þess kost að taka þátt í rannsókninni, því góð þátttaka er forsenda þess að ár[ei]ðanlegar upplýsingar fáist um umfang matarsóunar hér á landi,“ segir að lokum í tilkynningunni.