Kærkomin vaxtalækkun

Það er óumdeilt að á tímum góðæris er peningsstefnunni ætlað að vera aðhaldssöm. Raunvextir á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi og aðhaldið því nægilegt og rúmlegt. Krónan hefur styrkst um 4% milli vaxtaákvörðunarfunda og það hefur dregið úr verðbólguþrýstingi að mati Seðlabanka Íslands (SÍ). Samfara lágri verðbólgu hefur aðhald peningastefnunnar aukist og skapaði það svigrúm til vaxtalækkunar að þessu sinni..

Frá því verðbólgumarkmiði SÍ var náð í ársbyrjun árið 2014 hefur SÍ kerfisbundið spáð meiri verðbólgu en raunin hefur verið. Í gær var ný verðbólguspá SÍ birt. Ekki kemur á óvart að bankinn lækkar spána og gerir SÍ nú ráð fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á seinni hluta ársins 2018. SÍ hefur augljóslega áhyggjur af vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum og kemur það skýrt fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar SÍ þar sem fjórum sinnum eru nefndar áhyggjur af vaxandi spennu í hagkerfinu. Enn eru engin teikn á lofti um aukna skuldsetningu ríkissjóðs.

Mikill vaxtamunur við útlönd skapar vanda sem SÍ hefur reynt að girða fyrir með höftum á innflæði fjármagns. Þó sú aðgerð hafi dregið úr vaxtamunarsviðskiptum hefur á sama tíma innflæði sett aukinn þrýsting á gengi krónunnar. Það innflæði verður ekki rakið til utanríkisviðskipta.

Hættan sem getur skapast af verulegri styrkingu krónunnar er öllum ljós. Sé ekki innistæða fyrir slíkri styrkingu myndast svikalogn. Vaxtalækkun gærdagsins var löngu tímabær. Vonandi er hún einnig liður í því ferli að minnka vaxatamun við útlönd. Um þetta er rætt á vef SA-Samtaka atvinnulífsins.

 

rtá

Nánar www.sa.is