Jón von tetzhner fjárfestir í hringbraut

Jón von Tetzhner hefur keypt hlut í Hringbraut og verður þar með annar stærsti hluthafi félagsins en Hringbraut rekur sjónvarpsstöð, útvarp FM89,1 og vefsíðuna hringbraut.is. Aðrir eigendur eru Guðmundur Örn Jóhannsson, stjórnarformaður og útgefandi og Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri. Gera má ráð fyrir því að fleiri hluthafar verði kynntir til sögunnar síðar, en með kaupum Jóns er fyrsta þrepi fjármögnunar lokið.

Guðmundur Örn Jóhannsson:

Ég fagna aðkomu Jóns von Tetzchner að fyrirtækinu. Með tilkomu hans munum við styrkja innviði fyrirtækisins enda liggja margar áskoranir í því að byggja upp öflugt fjölmiðlafyrirtæki sem einbeitir sér fyrst og fremst að íslenskri samfélagsumræðu. Þá er mikilvægt fyrir miðil eins og Hringbraut að vera ávallt vakandi fyrir nýjungum em fjölmiðlar munu halda áfram að breytast með aðstoð tækninnar.”

Hringbraut flutti nýverið í rúmgott húsnæði á Eiðistorgi, þar sem Íslandsbanki var áður til húsa. Í nýju húsnæði mun afkastageta í dagskrárgerð sjónvarps og útvarps aukast til muna en þess má geta að síðastliðnar vikur hafa áhorfstölur Hringbrautar hækkað verulega. Þá stendur yfir undirbúningur að ýmsum nýjum sjónvarps- og útvarpsþáttum á dagskrá, sem kynntir verða um miðjan ágúst.

 Jón von Tetzhner:

,,Það hefur verið áhugavert að fylgjast með því hvernig Hringbraut hefur á aðeins rúmu ári náð að verða stærsta sjónvarpsstöðin sem aðeins sýnir innlent efni. Ég tel mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að gróska sé til staðar í samfélagsumræðu og í dag er hægt að reka ljósvakamiðla á mun hagkvæmari hátt en áður var. Í þessu geta falist mörg tækifæri.”

Jón von Tetzhner er oft kenndur við Operu, en það er eitt stærsta kauphallarfyrirtækið í Noregi. Hann ólst upp á Seltjarnanesi en býr nú í Bandaríkjunum. Á síðustu árum hefur Jón fjárfest í nokkrum íslenskum sprotafyrirtækjum eins og Örnu, Hringdu, Dohop og Spyr.is og Innovation House Þá stofnaði Jón Vivaldi Technologies, sem þróar Vivaldi vafran. Vivaldi vafrinn er vafri fyrir kröfuharða neytendur en hann hefur að stórum hluta verið þróaður á Íslandi.