Jón sakar elizu forsetafrú um að beygja sig í duftið fyrir harðlínu íslamistum - „það var það sem forsetafrúin gerði“

Jón Magnússon sakar Elizu Reid forsetafrú um að beygja sig í duftið fyrir íslamistum. Þetta gerir hann á Facebook-síðu sinni. Jón er hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Frjálslyndaflokkinn. Jón varpaði þessum ásökunum fram eftir hin skelfilegu hryðjuverk á Srí Lanka sem hafa kostað rúmlega 300 mannslíf hið minnsta. Þá hefur Al-Qaeda eða Íslamska ríkið lýst yfir ábyrgð á ódæðinu. Í samtali við Hringbraut sagði hann að gestir moskunnar hér á landi væru harðlínu íslamistar.

Jón fjallar um málið og segir að athyglisvert verði að sjá viðbrögð forystumanna vegna hryðjuverkanna. Hann segir hið „pólitíska-Íslam stefna að alræði og undirokun þeirra sem eru annarrar skoðunar. Þá bætir Jón við að íslamistar líti svo á að hryðjuverkin sé einn af óhjákvæmilegum liðum til að ná markmiðum sínum. Þá kallar Jón meðlimi mosku hér á Íslandi harðlínumenn og blandar Jón síðan  Elizu Reid forsetafrú í málflutning sinn þegar hann segir:

„Forsetafrúin okkar fann sig tilknúna til að fara í mosku harðlínumanna á Íslandi og fara úr skóm og sokkum og setja upp höfuðbúnað undirokaðra múslimakvenna í kjölfar hryðjuverksins í Christcurch. Hvað skyldi hún gera nú?“

Er Jón að vísa til þess þegar Eliza heimsótti moskuna í Reykjavík þann 23. mars. Í frétt Stundarinnar um heimsóknina sagði að Eliza hefði fengið boð nokkrum vikum fyrir hryðjuverkaárásirnar í Christchurch á Nýja Sjálandi og tímasetningin á heimsókninni tilviljun. Sagði Eliza í samtali við Stundina að sjálfsagt væri að sína stuðning þegar ódæði á borð við þetta væri framið. Eliza skoðaði húsakynnin, fékk myntute og flutti ávarp. Eliza sagði fordóma og kynþáttahatur óþolandi en hún trúir því að flestir séu umburðarlyndir og brjóstgóðir en eins og annars staðar megi finna lítinn og háværan minnihluta sem deilir ekki þeim sjónarmiðum. Þá sagði Eliza að ef fólk af ólíkum uppruna og trú ætti samtal væri hægt að vinna bug á ótta og tortryggni. Eliza bætti við:

„Antoine de Saint-Exupéry, sem skrifaði ævintýrið um Litla prinsinn, sagði eitthvað á þá leið að þú sért ólík mér en það að kynnast þér geri mig ekki að minni manneskju heldur meiri. Ég vil hafa þetta að leiðarljósi,“

Það virðist hafa farið framhjá Jóni að Eliza hafi verið boðið í moskuna hér á landi nokkrum vikum fyrr. Pálmi Gunnarsson söngvari segir á Facebook-vegg Jóns:

„Ég fyrirlít glæpamenn sem stunda dráp á saklausum borgurum í nafni trúar hvaða nafni sem hún nefnist. Að ýja að því að forsetafrúin okkar sé að beygja sig í duftið fyrir islamistum er vægast sagt langt seilst.“

Þessu svaraði Jón:

„Það var það sem forsetafrúin gerði því miður. Hvort sem þér eða mér líkar betur eða verr. Ekki veit ég hvort þeir fá aðdáunarbréf þessir sturluðu menn hef ekki heyrt af því, en alla vega eru engin samtök á bakvið þá. Síðan nenni ég ekki að fara út í ruglumræðu um stríðsátök, sem eiga enga tengingu við þetta, en er því miður dæmi um það Pálmi að langt sé sótt til fanga til að afsaka ódæði íslamistanna.“

Pálmi kvaðst þá vera ósammála og sagði:  „Þú vinnur ekkert með því að sýna trúarbrögðum afturendann sama hversu rugluð þér finnst þau vera. Kristnir og múslímar hafa átt ágæt samskipti gegnum söguna. Forsetafrúin sýnir styrk með því að heimsækja moskuna.“

Hringbraut ræddi við Jón Magnússon. Var Jón spurður hvað hann hefði fyrir sér í því að kalla múslima í moskunni hér á landi harðlínumenn fullyrti Jón að þeir væru styrkir með fjármunum frá Sádí-Arabíu. Blaðamaður spurði þá Jón hvaða gögn hann hafði sér til stuðnings sem tengdi Sádí-Arabíu við moskuna sagðist hann engin gögn hafa, né getað bent á þau. Vildi hann meina að múslimar sem nýta sér moskuna hér á landi að þeir væru harðlínumenn vegna þeirra manna sem fá að tjá sig í moskunni. Jón gaf ekki upp nein nöfn á þeim mönnum sem hann taldi hafa tjáð sig í moskunni.

Aðspurður hvort það væri ekki taktlaus að tengja forsetafrúna við þennan hryllilega harmleik með með því að segja að forsetafrúin hefði séð sig tilknúna til að fara í mosku harðlínumanna á Íslandi líkt og hann orðaði það og fara úr skóm og sokkum og setja upp höfuðbúnað undirokaðra múslimakvenna svaraði Jón:

„Ég get nú ekki fullvissað mig um að hún hafi farið úr sokkunum,“ sagði Jón og hló. Hann bætti síðan við að hann væri ekki að tengja hana beint við atburðinn. Hann hefði ekki séð forsetafrúna bregðast við á sama máta og hún brást við eftir hryðjuverkið í Christcurch. Jóni var þá bent á, oftar enn einu sinni að heimsókn forsetafrúarinnar var skipulögð mörgum vikum áður og því ekki í tengslum við harmleikinn á Nýja-Sjálandi.