Jón Gnarr vill leggja járnbrautarteina á milli Reykjavíkur og Akureyri: „Því fyrr sem við byrjum að skoða þetta því betra verður allt fyrir komandi kynslóðir"

Jón Gnarr vill leggja járnbrautarteina á milli Reykjavíkur og Akureyri: „Því fyrr sem við byrjum að skoða þetta því betra verður allt fyrir komandi kynslóðir"

Jón Gnarr fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur og athafnamaður vill leggja járnbrautarteina á milli Reykjavíkur og Akureyri fyrir vöru- og fólksflutninga með rafknúinni lest.

„Frá Reykjavík í Borgarnes lægju teinarnir að mestu samhliða þjóðveginum. Lestin færi um göngin yfir Hvalfjörð, fræst úr malbikinu fyrir teinum. Göngunum væri lokað fyrir bílaumferð þann stutta tíma sem það tæki lestina að renna í gegnum þau. Það væri ekki oftar en 1-2 sinnum á sólarhring og ekki mikil truflun af því. Það er líka vert að athuga að eftir að lestin byrjar að ganga munu vöruflutningar með flutningabílum nær algjörlega detta niður og umferð minnka. Teinarnir fylgdu svo þjóðveginum, að mestu, fyrir utan nokkra hugsanlega útúrdúra og þar sem hentugara væri að gera lestargöng, alla leið til Blönduóss,“ segir Jón í færslu sinni á Facebook.

„Frá Blönduósi færu teinarnir eftir Þverárfjallsvegi til Sauðárkróks. Frá Sauðárkróki lægi leiðin yfir Tröllaskaga og til Dalvíkur og frá Dalvík til Akureyrar.
Þegar þessum áfanga væri lokið mætti byrja að skoða áframhaldandi teina, frá Akureyri til Egilsstaða og svo þaðan til Reykjavíkur, þar sem hringnum yrði lokað.“

Viðurkennir Jón að hann sé hvorki verkfræðingur né sérstaklega kunnugur Tröllaskaganum og segist hann aldrei hafa lagt járnbrautarteina en sýnist honum þetta þó mjög vel gerlegt.

„Það er búið að gera svipaða hluti í Norður Noregi, Rússlandi og Síberíu. Við hljótum að átta okkur á því að framtíð samgangna á landinu getur ekki legið í flugumferð og er það aðallega af umhverfisástæðum. Við eigum vegakerfið og munum halda áfram að nota það en það var aldrei hugsað til þungavöruflutninga og er algjörlega komið að þolmörkum.

Ef við viljum í alvöru tryggja blómlega byggð um allt okkar fallega land þá eru lestarsamgöngur eina vitið og því fyrr sem við byrjum að skoða þetta því betra verður allt fyrir komandi kynslóðir, íbúa og gesti.“

Nýjast