Jón gnarr var fluttur á spítala í vikunni: „ég lá bara einsog slytti og grét einsog barn“

Jón Gnarr leikari, rithöfundur, stofnandi Besta flokksins og fyrrverandi borgarstjóri opnar sig um erfiða lífsreynslu sem hann varð fyrir í vikunni. Hann byrjaði á því að finna fyrir vægum einkennum mígrenis sem ágerðist. Hann náði hvorki að samræma hugsun í orð né vissi hvernig hann kæmist á heilsugæslu. Sú tegund af mígreni sem Jón er með setur hann í mikla áhættu á að fá heilablóðfall. Jón Gnarr komst loks undir læknishendur og segir að þar hafi hann grátið eins og barn. Jón Gnarr segir á Facebook:

„Á sunnudaginn byrjaði ég að finna fyrir vægum einkennum mígrenis, aðallega sjóntruflunum, sem liðu svo hjá og ég svaf ágætlega um nóttina. Daginn eftir sat ég við skriftir. Um kvöldið átti ég svo að fara í næturtökur vegna hlutverks míns í kvikmyndinni Gullregn eftir Ragnar Bragason.“

Á þessum tímapunkti leið Jóni ágætlega og fannst skrifin ganga vel. Hann gerði hlé um klukkan tvö og fékk sér kaffi.  

„Ég var búinn að eiga í smávægilegu basli með orðaval en ekkert sem ég upplifði sem stórmál, bara að leita að réttu orðunum,“ segir Jón og heldur áfram:

„Þegar ég svo settist niður við tölvuna með kaffibollann og leit yfir textann sá ég að ég var búinn að skrifa næstum heila blaðsíðu af algjöru bulli. Mér brá því ég gat ekki einu sinni lesið út hvað ég hafði verið að reyna að segja, bara óskiljanlegt.“

Jón eyddi textanum og byrjaði upp á nýtt. Þá var sama uppá teningnum.  

„Það kom bara bull og ég náði ekki að samræma hugsun í orð. Ég hugsaði að ég yrði að taka mígrenilyfið mitt en gat ómögulega munað hvar það var. Þá ætlaði ég að hringja í Heilsugæsluna en mundi ekki hvað það hét og vissi ekki hvernig ég ætti að komast þangað. Og á sama tíma fann ég mígrenið aukast. Jóga var í klippingu og við á leið til Úkraínu á miðvikudeginum. Ég vildi alls ekki trufla hana í klippingunni. Ég hringdi því í Kamillu dóttur mína og bað hana að hjálpa mér,“ segir Jón Gnarr og bætir við:

„Hún kom og sótti mig og þá var ég orðinn alveg ruglaður, kominn með höfuðverk og ógleði. Hún keyrði mig beint uppá slysó og ég var tekinn beint inn og fékk lyf í æð og var sendur í myndatöku. það þarf að gera því sú tegund af mígreni sem ég er með setur mig í mikla áhættu á að fá heilablóðfall. Ég lá bara einsog slytti og grét einsog barn. Sem betur fer voru ekki neinar blæðingar.“

Tökunum á Gullregni var aflýst og upp úr miðnætti var Jón útskrifaður og fór heim. Um kvöldið lauk hann tökunum og flaug síðan til Úkraínu en Jón hefur síðustu daga tekið þátt í ráðstefnu í Kænugarði. Jón Gnarr segir:

„Ég er búinn að halda tölur, hitta bæði borgarstjórann og forseta Úkraínu og hans fólk og búinn að fara í fjölda viðtala. Einsog fram hefur komið þá hefur nýkjörinn forseti Úkraínu nefnt mig og Besta flokkinn sem sína helstu fyrirmynd og fór ekki leynt með það í samtali okkar. Ég hefði viljað ræða meira við hann og þau en til þess gefst ekki tími núna.“

Þá segir Jón Gnarr að lokum:

„En ég er ennþá soldið eftir mig og þarf að taka mér smá tíma til að velta þessu öllu fyrir mér. Í gærkvöldi sátum við Jóga kvöldverð með ýmsum fyrirmennum ss Tony Blair, nokkrum Hollívúddstjörnum, Steven Pinker, Carl Bildt og hans ágætu konu, Jeffrey D. Sacks og fullt af stjórmennum sem við hreinlega þekktum ekki. Lífið getur verið alveg rosalega furðulegt.“

Set með til gamans skjáskot af tölvuskrifum mínum í mígreniskasti.

 \"\"