Jón björnsson eða björn zoega?

Jón Björnsson eða Björn Zoëga eru helst taldir koma til greina til að taka við starfi forstjóra Icelandair Group sem ráðið verður í innan skamms.

 

Flestum ber saman um að fyrirtækið þurfi utanaðkomandi forstjóra. Það þurfi ferska vinda inn í fyrirtækið. Talið er að ráða þurfi reyndan forstjóra í starfið, einhvern sem hefur sýnt mikinn árangur sem stjórnandi annars staðar og er vanur að takast á við vandasöm viðfangsefni. Báðir þessir menn eru með þannig feril að baki. Björn Zoëga var forstjóri Landsspítalans og þótti ná góðum árangri við að reka þessa flóknu og erfiðu stofnun. Hann þurfti að ná samningum við stórar stéttir heilbrigðisstarfsmanna og var laginn við það. Þá er glíman við fjárveitingarvaldið erfið fyrir forstjóra LSH en Birni gekk furðu vel að fást við það. Spítalinn er einn stærsti vinnustaður landsins. Þar eru hátt í fimm þúsund störf. Birni var boðin forstjórastaða hjá Karolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð og hefur hann gegnt því starfi undanfarin ár. Hann hefur því ómetanlega stjórnunarreynslu í stórfyrirtækjum hér á landi og erlendis.

 

Sama gildir um Jón Björnsson. Hann er með mikla stjórnunarreynslu. Hann starfaði hjá Högum áður en hann tók við starfi forstjóra Magasin Ddu Nord í Kaupmannahöfn og þótti standa sig frábærlega þar. Hann hefur verið forstjóri Festi sem rekur Krónuna, Elco og fleira. Nú er það að renna inn í N1 hf. þannig að Jón stendur á tímamótum.

 

Markaðsaðilar  og stærstu hluthafar Icelandair telja að ekki komi til greina að ráða neinn innan Icelandair í starfið og heldur ekki fyrrverandi stjórnendur úr fluginu. Lív Bergþórsdóttir fráfarandi forstjóri NOVA hefur verið nefnd en bent er á að hún kemur ekki til greina af samkeppnisástæðum. Hún er formaður WOW og af þeirri ástæðu myndu samkeppnisyfirvöld bregða fæti fyrir ráðningu hennar.

 

Icelandair Group stendur sterkum fótum fjárhagslega, með 55 milljarða í eigin fé og 25 milljarða í sjóði. Félagið hefur verið rekið með stöðugum hagnaði síðustu átta árin og því hefur því alla burði til að rétta við eftir þann tímabundna mótbyr sem það hefur lent í núna. 

 

Flestir telja að fyritækið og gengi þess á Kauphöllinni taki flugið að nýju strax og ráðinn hefur verið öflugur, reyndur og kraftmikill utanaðkomandi forstjóri. Björn og Jón uppfylla báðir þau skilyrði.