„ættu að þakka ráðherra fyrir að hafa komið skikkan á veiðarnar og varið rétt íslands til makrílveiða“

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, telur að Hæstiréttur hafi horft fram hjá meginmarkmiðum fiskveiðistjórnunarlaga um að það beri að stýra veiðum út frá þjóðarhagsmunum en ekki hagsmunum einstakra fyrirtækja þegar ríkið var dæmt skaðabótaskylt þann 6. desember síðastliðinn vegna úthlutunar makrílkvóta. Hann segir einnig að útgerðir ættu fremur að þakka honum fyrir verk sín en að sækja sér bætur.

Í gær var greint frá því að í kjölfar dóms Hæstaréttar gætu tugir milljarða verið í húfi fyrir ríkið vegna stefna frá útgerðarfélögum vegna úthlutunar makrílkvóta á árunum 2011 til og með 2014. Kröfurnar, sem hafa borist frá stórum og meðalstórum útgerðum, gætu numið allt að 35 milljörðum króna.

„Enn er ósamið um makríl milli ríkja og því er það svo fáránlegt að einstaka útgerðir geta verið að gera kröfur til þess og hins í óumsömdum hlutaskiptum veiða. Einnig þykir mér makalaust ef útgerðir hafi í sér siðferðis- og samfélagslega að höfða mál til að fá bætur frá ríkinu. Þeir ættu miklu frekar að þakka ráðherra fyrir að hafa komið skikkan á veiðarnar og varið rétt Íslands til makrílveiða,“ segir Jón í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir þann rétt Íslands ekki hafa verið sjálfsagðan á þessum tíma. „Ísland stóð í hörðum deilum við ESB sem neitaði að viðurkenna að hér væri makríll og hótaði umfangsmiklu viðskiptabanni með íslenskan fisk ef við hættum ekki makrílveiðum. Það hefði ekki verið til framdráttar fyrir þessi útgerðarfélög ef ráðherra hefði ekki staðið í lappirnar og hafnað kröfum ESB sem á sama tíma setti löndunarbann á Færeyjar vegna veiða á makríl og síld.“

Jón var sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á árunum 2009-2011. Árið 2014 komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki farið að lögum við úthlutun makrílkvóta og Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu í lok síðasta árs.

Dregur í efa að Hæstiréttur hafi verið hlutlaus

Jón telur að ríkislögmaður hafi ekki tryggt hlutlausan dómstól og bendir í því samhengi á að einn af hæstaréttardómurum í makrílmálinu, Árni Kolbeinsson, hafi verið ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu á árunum 1985 til 1998. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, benti einnig á að sonur Árna, Kolbeinn Árnason, hefði verið framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna og þannig haft ríka aðkomu að kröfugerðum á hendur ríkinu í tengslum við hagsmuni sem tengjast makríl.

„Þessi mál eru afar pólitísk og umdeild og voru það frá byrjun eins og lögin um kvótalögin voru. Mér finnst skrítið að hæstaréttardómari, sem hefur áður átt beina hlutdeild að máli með samningu og setningu mjög umdeildra laga á sínum tíma, skuli líka kallaður til sérstaklega til að dæma í Hæstarétti um svo umdeilt mál. Hann hafði áður komið að virkum hætti sem ráðuneytisstjóri þess tíma,“ segir Jón í samtali sínu við Fréttablaðið.

Hann segist hissa á að ríkislögmaður skuli ekki hafa farið fram á að Árni viki úr dómnum vegna fyrri tengsla við málið, með það fyrir augum að tryggja að dómurinn yrði hlutlaus og réttmætur.

Jón segist hafa verið þess fullviss á sínum tíma að reglugerðin stæðist lög og gott betur en það. „Reglugerðin var nauðsynleg á sínum tíma til að koma skipulagi á makrílveiðar. Undirréttur dæmdi þetta lögmætt og þess vegna átti ríkislögmaður að gæta þess að Hæstiréttur væri hlutlaus.“

Frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar um makrílveiðar var samþykkt á Alþingi í gær. Jón telur að það verji ekki hagsmuni þjóðarinnar. „Sú lagabreyting er óttaleg hrákasmíð þar sem verið er að fara á svig við meginhagsmuni þjóðarinnar hvað varðar stjórnun, ráðstöfun og nýtingu auðlindarinnar.“

Hver á makrílinn?

Í mars síðastliðnum sýndi Hringbraut fréttaskýringuna Hver á makrílinn? eftir Pétur Einarsson í frétta- og umræðuþættinum 21, þar sem Jón er á meðal viðmælenda.

Í skýringunni er merkileg saga makrílsins hér á landi rakin. Greint er frá því að hann byrji á að slæðast með síldinni árið 2005 og árið 2007 er byrjað að veiða hann sérstaklega. Ári síðar, árið 2008, er beðið sérstaklega eftir makrílnum og þá veiðast 100.000 tonn á skömmum tíma. Verð og markaðir voru mjög hagstæðir, sem reyndist mikil lukka, sérstaklega þar sem í hönd fór efnahagskreppa þetta sama ár eins og alkunna er.

Á þessum tíma er Ísland að reyna að ná fram nokkurs konar veiðireynslu og þar með sanna eignar- og veiðirétt sinn gagnvart öðrum þjóðum sem höfðu reynslu af því að veiða makríl, t.d. Noregi og öðrum þjóðum í Evrópusambandinu, þjóðum sem töldu sig eiga fiskstofninn. Á sama tíma eru útgerðir hér á landi í kapphlaupi um að öðlast sem mesta veiðireynslu með það fyrir augum að fá úthlutuðum sem mestum makrílkvóta.

Í kjölfarið kviknuðu spurningar meðal almennings: „Hver á kvótann?“ „Af hverju er verið að afhenda hann útgerðarmönnum?“ Í Hver á makrílinn? er leitast við að svara þessum spurningum.

Fréttaskýringuna í heild sinni má finna hér: