Jón baldvin sakaður um kynferðislega áreitni á ný

Fjórar konur stíga fram og saka Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og sendiherra um kynferðislega áreitni í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Ásakanirnar spanna fimm áratugi og hefur sérstakur Facebook hópur verið stofnaður þar sem enn fleiri konur deila sögum af meintri áreitni Jóns Baldvins.

Konurnar fjórar sem koma fram undir nafni í umfjöllun Stundarinnar eru Carmen Jóhannsdóttir, Matthildur Kristmannsdóttir, María Alexandersdóttir og Guðrún Harðardóttir, sem hafði áður stigið fram í viðtali við Nýtt líf árið 2012.

Carmen lýsir kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins í sinn garð á heimili hans og eiginkonu sinnar Bryndísar Schram í þorpinu Salobreña á Spáni síðastliðið sumar. Þar hafi Jón Baldvin byrjað að strjúka á sér rassinn í vitna viðurvist, þar á meðal Laufeyjar móður Carmen, sem staðfestir að þetta hafi gerst.

Matthildur og María lýsa því hvernig Jón Baldvin hafi strokið þeim í eftirsetu í Hagaskóla árið 1967, þegar hann starfaði sem kennari við skólann. Matthildur segir frá því hvernig hann hafi strokið og káfað á sér og sleikt á sér hálsinn, eyrað og kinnina. María greinir frá því hvernig Jón Baldvin hafi strokið sér og grúft sig alveg upp við andlitið á sér.

Guðrún lýsir handskrifuðum bréfum sem Jón Baldvin hafi sent sér, bréf sem urðu sífellt kynferðislegri og grófari. Einnig lýsir hún tilraunum hans til að kyssa sig þegar hún var táningur og næturheimsóknum hans í herbergi hennar. Hún lagði fram kæru á hendur Jóni Baldvini árið 2005 fyrir kynferðisbrot gagnvart sér og ræddi kæruna og bréfin í viðtali við Nýtt líf árið 2012. Í kjölfar MeToo byltingarinnar hafi hún viljað segja alla sögu sína.

Á annan tug kvenna hafa gengið í sérstakan Facebook hóp þar sem fleiri sögur koma fram, en sumar þeirra segjast ekki tilbúnar til að deila sögum sínum opinberlega, hvort sem það væri nafnlaust eður ei.

Í stuttu samtali við Stundina hafnar Jón Baldvin þessum ásökunum og segir þær fjarstæðukenndar og ósannar.