Jón baldvin lenti í lífshættu á gerpi: sogaðist út með flóðinu – síðan tók ballerínan á móti honum

Í bók Jóns Baldvins Hannibalssonar, Tæpitungulaust, sem kom í verslanir í lok síðasta mánaðar er fjallað um þegar Jón Baldvin lenti í mikilli svaðilför og litlu máti muna að hann léti lífið. Upprunalega átti bók Jóns Baldvins að koma út í febrúar á þessu ári. Skömmu fyrir áætlaða útgáfu bókarinnar sökuðu fjórar konur Jón Baldvin um kynferðislega áreitni og var útgáfu þá slegið á frest.

Í bókinni segir Jón Baldvin frá því þegar hann réð sig á togarann Gerpi frá Neskaupstað árið 1958 að afloknum stúdentsprófum. Hann greinir einnig frá því að hann hafi fengið það hlutverk að manna skipið að stórum hluta sjálfur. Jón Baldvin segir:

„Ég smalaði saman menntskælingum og skáldaspírum, ásamt nokkrum þaulvönum sjóurum að vestan, sem ég fékk útskrifaða af drykkjumannahælinu á Gunnarsholti.

Við gefum Jóni orðið:

„Gerpir var síðutogari, 1000 tonn, hvorki meira né minna, stærsta skip íslenska flotans. Vistarverur voru vandaðar og aðbúnaður góður. Matsveinninn, Finnur Bjarnason, ásamt hjálparkokki, hélt mannskapinn vel í mat og drykk. Ég lenti á bátsmannsvakt undir stjórn Herberts Benjamínssonar – Hebba bátmanns, eins og við kölluðum hann. Hebbi var sjóraufaralegur í meira lagi, enda frá Ísafirði. Hann hafði lent í slysi og hafði svartan sjóræningjalepp fyrir öðru auganu. Hann reyndist vera margra manna maki til verka.

Sennilega hefði mörgum manninum fallist hendur í hans sporum, þegar hann fór að kanna liðið. Það kom á daginn, að á vaktinni var einn vanur netamaður, einn eða tveir höfðu eitthvað gripið í net. Að öðru leyti skilaði liðið auðu. Á útstíminu til Grænlands mátti Hebbi því byrja á „saumanámskeiði“ uppi í keis. Sem betur fór var dræmt fiskirí til að byrja með, svo hægt var að halda framhaldsnámskeið í saumaskapnum, áður en verulega fór að reyna á mannskapinn.

Sloppið með skrekkinn

Við snerum ekki heim á leið fyrr en í lok september og það með fullhlaðið skip og fullar hendur fjár. Reyndar var ég minntur á, að brugðið getur til beggja vona, ef eitthvað er að veðri á þessum slóðum. Það var verið að ganga rammlega frá öllu á dekki fyrir stímið af Nýfundnalandsmiðum til Grænlands. Myrkur var skollið á og úfinn sjór.

Af einhverjum ástæðum var ég seinastur af dekkinu og álpaðist til að fara bakborðsmegin meðfram brúnni, en veðrahamurinn buldi á skipinu á bakborða. Áður en ég næði að forða mér, skall brotið yfir. Skipið lék á reiðiskjálfi, og útsogið var svo öflugt, að ég missti handfestu og sogaðist út með flóðinu. Það vildi mér til lífs, að ég skorðaðist af við bakhlerann, þar sem sjórinn fossaði fram hjá allt í kring um mig, þangað til skipið rétti sig við. Skjálfandi á fótunum, tókst mér að neyta færis og skreiðast inn í brúna fyrir framan borðsalinn og læsti kyrfilega á eftir mér. Næstu mínúturnar hreyfði ég hvorki legg né lið. Ef bakhlerinn hefði ekki bjargað mér, hefði enginn orðið til frásagnar um, hvað gerðist, og þessi saga ekki orðið lengri. Enginn hefði tekið eftir því, fyrr en löngu síðar, að einn úr áhöfninni var horfinn. Skipið var komið á fullt stím og stefndi að Grænlandsströndum.

Þegar ég staulaðist loks inn í borðsalinn, fölur og fár, voru félagar mínir flestir sestir að spilum. Þegar við komum til hafnar í Hafnarfirði, eftir mikið og langt sjóvolk, var eftirvænting í mínum huga, hvort nokkur tæki á móti mér. Þegar við vorum að binda landfestar, sá ég virðulegan mann með hatt stíga upp í svartan ráðherrabíl ofarlega við bryggjuna og hverfa hljóðlega á braut.

En ballerínan stóð fremst á kajanum og tók á móti sjóaranum. Hannibal hafði mætt til að taka á móti mér, en dregið sig kurteislega í hlé, þegar hann sá, að honum var ofaukið.“