Jón axel er fluttur til ítalíu: „helgarinnkaup eru ca 20 til 25% af því sem kostar að lifa á íslandi“

„Það er einfaldlega búið að vera gamall draumur hjá okkur hjónum að færa okkur um set og dvelja yfir vetrarmánuðina á bjartari og heitari stað, þegar mesti kuldinn og dimman er á Íslandi.“

Þetta segir Jón Axel Ólafsson, útvarpsmaður á K100 í samtali við Morgunblaðið. Hann er fluttur til borgarinnar Bari á Ítalíu ásamt Maríu eiginkonu sinni. Hann mun þó halda áfram að starfa fyrir stöðina.

„Þetta er allt voðalega sérstakt, að hoppa úr bubblunni sinni, rútínunni, heimilinu sínu og flytja inn í litla skonsu með alltof litlu baði, pínulitlu rúmi og gargandi ítölskum kerlingum allt í kring. Mjög sérstakt og einstakt tækifæri að fá að sjá eitthvað annað en maður er vanur.“

Jón Axel mælir með því að fólk flytji erlendis um tíma. Það sé mun einfaldara en það hljómar.

„Maður á alltaf að láta drauma sína rætast með einhverjum hætti, en forsendurnar þurfa að vera réttar og þá láta tækifærin á sér kræla. Það eykur víðsýnina að fá tækifæri til að búa erlendis, þó ekki sé nema í stuttan tíma, og átta sig á að það er líka fólk annars staðar í heiminum, með ólíka sýn á lífið, með aðrar þarfir og annað sjónarhorn. Ísland er frábært og maður yfirgefur það aldrei.“

Aðspurður hvort hann flytji aftur heim síðar svarar hann:

 „Thja. það veit maður ekki, a.m.k. ekki núna. Veðráttan hentar mér betur, þó að það sé gaman að horfa stundum í storminn. Það fer svo auðvitað eftir því hvað verður. Verkefnin sem maður er að vinna í verða að segja svolítið til um það hvert framhaldið verður. En ég er hér núna með konunni minni og okkur líður vel í 27 stiga hita og sól,“ segir Jón og bætir við að lokum:

„Verðlagið fær mann til að brosa í kampinn þegar maður fer út í búð hér því munurinn er slíkur að maður hrekkur í kút, því venjuleg helgarinnkaup eru ca 20 til 25% af því sem kostar að lifa á Íslandi. Maður getur alveg vanist því.“