Jón ársæll rekinn eftir að hann fitnaði: „þá missti ég starfið!“

Jón Ársæll Þórðarson var gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut í vikunni. Jón Ársæll er einn dáðasti spyrill landsins og vann meðal annars hug og hjörtu landsmanna í þáttum sínum Sjálfstætt fólk.

Í viðtalinu sem hefur vakið mikla athygli rifjaði Jón Ársæll upp hvernig einn þáttur af Sjálfstæðu fólki  fór aldrei í loftið, þáttur sem fjallaði um umdeildan mann. „Það var þáttur um Jón stóra, sem var talinn hættulegasti maður á Íslandi,“ útskýrði Jón Ársæll. Margt annað bar á góma í þættinum, þá meðal annars að Jón Ársæll var látinn fjúka sem fyrirsæta. Kona Jóns Ársæls er hin þekkta listakona, Steinunn Þórarinsdóttir. Er hún einn fremsti myndhöggvari þjóðarinnar og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, bæði hér heima og erlendis. Kom í ljós í þætti Sigmundar að Jón Ársæll var fyrirmynd margra myndastyttna Steinunnar.  

„Hún notaði mig til að byrja með áður en ég fór að fitna,“ sagði Jón Ársæll.

Varstu þá rekinn? Spurði Sigmundur Ernir.

„Þá missti ég starfið!“ svaraði Jón Ársæll og bætti við:

„Hún hefur notað syni okkar, aðallega eldri son okkar, Þórarinn Inga sem er sjálfur listamaður austur á Seyðisfirði.“

Þá sagði Jón Ársæll að lokum um fyrirsætuferilinn.

„Ég fæ að hræra sement og bera þunga hluti á vinnustofunni.“