Jóhannes grípur til varna

Uppsláttur Fréttablaðsins um arðgreiðslur rekstraraðila Laugalands hefur vakið athygli í dag. Þar tekst blaðamanni að fá félagsmálaráðherra til að taka undir það að óeðlilegt sé að rekstraraðili taki hafi arð af starfsemi sem hann rekur með ríkið sem eina viðskiptavin. 

Fjölmargir hafa tekið til máls í umræðu um fréttina í dag og ýmisr bent á að eðlilegt sé að rekstraraðili sem taki áhættu á rekstri geti haft nokkurn arð af honum, óháð því hverjir viðskiptavinirnir séu.

Jóhannes Kr. Kristjánsson fjölmiðlamaður grípur til varna fyrir rekstraraðila Laugalands með eftirfarandi hætti:

\"Það eru tíu ár síðan dóttir mín heitin hún Sigrún Mjöll útskrifaðist úr 6 mánaða vímuefnameðferð af Laugalandi í Eyjafirði. Hún kom úr meðferðinni breytt og betri manneskja með nýja sýn á alla möguleikana í lífinu. Pétur Broddason forstöðumaður Laugalands skipaði stóran sess í lífi Sissu eftir meðferðina og hún hafði samband við hann þegar hún átti erfitt eða á tímamótum hjá henni. Ég man sérstaklega eftir því þegar ég fór með henni á snjóbretti í Bláfjöllum að þá bað hún mig um að taka mynd af sér í snjóbrettagallanum með snjóbrettið og senda Pétri myndina. Hún vildi sýna honum að allt gengi vel en á Laugalandi lærði hún á snjóbretti og fór ásamt hinum stúlkunum og starfsfólki í Hlíðarfjall hvenær sem færi gafst. Sissa lærði ótalmargt á Laugalandi og utanumhaldið um hana var ótrúlega gott. Hún grét þegar hún útskrifaðist og sagðist óska þess að geta verið áfram á þessum góða stað og langaði að sækja um skólavist í VMA. 

Ég hef verið í sambandi við Pétur Broddason frá því Sissa var hjá honum í meðferð og ber mikla virðingu fyrir honum og hans mikilvæga starfi. Ég veit hvað starfið skiptir hann miklu máli og ég veit að hann stendur vaktina alla daga ársins. Pétur og starfsfólkið á Laugalandi taka við stúlkum sem koma oftar en ekki úr hrikalegum aðstæðum og eru í hrikalegu ástandi. Allt starfið á Laugalandi gengur út á það að koma stúlkunum á rétta braut og hjálpa þeim að takast á við erfiðar upplifanir úr neyslunni eða æskunni. 

Pétur og hans fólk hefur í gegnum tíðina bjargað tugum stúlkna sem eru á góðum stað í lífinu í dag. Hann hefur lagt allt í starfið og meðal annars boðið stúlkunum til London og sumar þeirra voru að fara til útlanda í fyrsta sinn. Á Laugalandi hafa stúlkurnar gert þrjár stuttmyndir sem sýndar voru foreldrum og aðstandendum í Akureyrarbíó. Og svona mætti lengi telja. 

Það birtast ekki fréttir um alla sigrana sem unnir eru á Laugalandi þar sem allt gengur út á að bjarga ungum stúlkum. Ef settur er verðmiði á eina stúlku sem útskrifast af Laugalandi og fer ekki aftur í neyslu vímuefna þá er fjárhagslegur ávinningur samfélagsins mörg hundruð milljónir króna. Hver einasti einstaklingur sem er í neyslu vímuefna kostar samfélagið mikla peninga í formi afbrota, í heilbrigðiskerfinu, löggæslu, dómsmálum, tryggingamálum, fangelsisvist og svo framvegis. Ávinningurinn fyrir samfélagið er því mikill að meðferð unga fólksins gangi vel og að viðkomandi leiðist ekki aftur í neyslu vímuefna. 

Ég fagna því að Pétri takist að reka meðferðarheimilið réttu megin við núllið og ég fagna því að hann geti greitt sér arð sem nemur rúmlega 300 þúsund krónum á mánuði fyrir skatt á síðustu tíu árum. Hagnaður samfélagsins er svo miklu meiri vegna hans starfa. Og þarna úti eru fjölskyldur sem eiga Pétri og hans fólki allt að þakka. Það er ómetanlegt.\"