Jóhanna eyðilagði samfylkinguna

Samfylkingin er minnst þeirra stjórnmálaflokka sem kæmu mönnum á þing samkvæmt nýbirtri Gallupkönnun sem er fagleg og víðtæk, andstætt þeim ófullkomnu könnunum sem 365 miðlar hafa verið að birta.

Einungis 7,1% kjósenda segjast ætla að velja Samfylkinguna sem jafngildir því að flokkurinn fengi 4 eða 5 menn kjörna á þing. Björt framtíð er stærri samkvæmt þessari könnun með 7,7% fylgi og 5 þingmenn. 

Í kosningunum árið 2009 hlaut Samfylking 29,8% atkvæða og 20 þingmenn kjörna. Hvað í ósköpunum hefur komið fyrir þennan flokk?

Stutta svarið er: Jóhanna Sigurðardóttir.

Jóhanna stýrði vinstri stjórn sinni illa að ýmsu leyti - þó ekki að öllu leyti.
Hennar helstu mistök voru þau að eyða orku í að hefna sín á pólitískum andstæðingum, einstaklingum og flokkum.

Þá hefur arfleifð hennar hvílt eins og skuggi yfir flokknum með átökum um forystu flokksins sem hún ber ábyrgð á. Jóhanna sætti sig aldrei við þá staðreynd að Árni Páll Árnason bar sigurorð af frambjóðanda Jóhönnu til formanns í ársbyrjun 2013.

Hún beið færis á að koma fram hefndum sem hún gerði með framboði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur úr launsátri á flokksþingi Samfylkingarinnar þar sem Árni Páll vann með aðeins eins atkvæðis mun.

Eftir það missti Árni Páll pólitíska vígstöðu sína og flokkurinn allan slagkraft.

Formannsskipti gerðu svo illt verra því ljóst er að Oddný Harðardóttir býr ekki yfir þeim leiðtogahæfileikum sem nægja til að rífa Samfylkinguna upp úr þessu djúpa fari.

Langir skuggar Jóhönnu Sigurðardóttur leggjast yfir Samfylkinguna. Þeir eru dökkir.