Jasmina fluttist til íslands eftir fjögur ár á flótta – eigum ekki að senda börn og foreldra í leit að öryggi úr landi

„Má ég segja ykkur hvernig einu barni l[í]ður á flótta? Ég sem barn bjó í stríði og var á flótta í [m]ínu eigin landi og hef fullan skilning á börnum sem eru á flótta ásamt foreldrum sínum. Þú ert dæmdur [til þess að] búa við kvíða sem skapast af óöryggi dag eftir dag. Þú ræður ekki við þig því hver dagur er óvissa en þú þarft samt finna leið að takast á við það. Þannig þú ýtir þessu frá þér og reynir [að] vera sterkur. Þú finnur að þú ert ekki mjög velkominn í nýju samfélagi þar sem þú ert áminntur daglega að þú ert flóttamaður og þú þráir heitara en allt að hlutirn[i]r væru eins og þ[eir] v[oru] einu sinni og eins og [þeir] er[u] hjá flest[u] öðru fólki úti [í] heimi.“

Á þessum orðum hefst átakanleg frásögn Jasminu Crnac sem hún deilir á Facebook-síðu sinni. Jasmina, sem er frá Bosníu og Hersegóvínu, varð flóttamaður ásamt foreldrum sínum þegar Bosníustríðið geisaði og býr nú á Íslandi. Hún deilir reynslu sinni með það fyrir augum að opna augu yfirvalda, sem hyggjast senda tvær afganskar fjölskyldur úr landi á næstunni.

Jasmina lýsir því hvernig hún hafi ekki viljað angra foreldra sína með sínum eigin áhyggjum þar sem þeir hafi sjálfir haft nóg á sinni könnu, þar á meðal áhyggjur af því hvernig ætti að klæða, fæða og skapa öryggi fyrir hana í aðstæðum sem þeir réðu ekkert við og sköpuðu ekki sjálfir. „Foreldrarnir reyna sitt besta að reyna [að] skapa öryggi og taka ákvarðanir sem þau telja bestar fyrir þá á þeim tíma til að komast lífs af. Hvernig eiga þau [að] veita börnunum sínum öryggi þegar þeir eru í vonlausri stöðu?“

„Börnin hugsa og upplifa oft mikið meira en nokk[rum] manni dettur í hug. Ég hugsaði oft þegar gekk mikið á í stríðinu og t.d. þegar nágrannarnir voru tek[nir] af hermönnum hvenær k[æmi] að okkur? Verður það í dag eða [á] morgun? Hvað ef við verðum tekin? Hvað gerist þá? Hvað ef ég fæ ekki [að] hitta vin[i] mína og fjölskyldu lengur? L[i]fi ég þetta af? Verður mér nauðgað eða verð ég send í fangabúðir?“ segir hún um hvað hafi farið í gegnum huga sér.

Jasmina lýsir því hvernig foreldrar hennar hafi reynt að koma þeim í öruggt skjól en að það hafi gengið erfiðlega. „Okkur var hafnað sem flóttamönnum þegar [við] v[orum] komin að landamærum Ungverjalands. Við þurftum að snúa við. Ungverjaland vildi okkur ekki. Þannig [að] við þurftum að snúa við aftur í helvíti á jörð. Þá hugsaði ég[:] [N]ú er okkur enda[n]lega kálað. Við eigum ekki neitt[,] búið að taka af okkur allt og við eigum þessar 4 töskur. Eigum ekkert til [að] snúa okkur til. Í annar[r]i tilraun til að komast af enduðum við í flóttamannabúðum með fleiri hundruðum manna að gista í íþróttasal án vatns og rafmagns. Í þriðj[u] tilraun [man] ég [að] við sátum úti í 40 stiga hita og foreldrar að reyna að redda okkur húsaskjóli. Þá hugsaði ég[:] [J]á nú sofum við úti og einhver kemur og skýtur okkur bara.“

Hvergi velkomin í fjögur ár

„Svona gekk þetta í 4 ár að færa sig milli staða og húsa og upplifa að maður er hvergi velkomin. Ekki heima þar sem við vorum ekki [af] rétt[u] þjóðerni né r[é]ttu[m] trúarbr[ögðum] en ekki heldur á svæði þar sem við vorum [ekki af] réttu þjóðerni [né] trúarbr[ögðum] því þarna vorum við flóttamenn. Á hverju kvöldi pældi ég í því hvort við lif[ð]um næsta dag af. Hvað þarf [é]g [að] þola mikið ofbeldi daginn eftir? Koma sprengjur á morgun á leiðin[n]i í skóla, kemur herinn í borgina, verður ráðist á mig, verður pabbi tekin, verða vinir mínir á lífi[,] en fjölskylda sem ég vissi ekki hvar var stödd á flóttanum, verða nágrann[ar] drep[nir], fáum við [að borða og og og...svona gekk þetta dögum og mánuðum saman. Það er svo margt sem ég hugsaði inni [í] sjálfri mér og kveið fyrir,“ segir Jasmina.

Hún kveðst hafa sagt foreldrum sínum að hún hafi aldrei orðið fyrir miklu einelti í skóla þegar þau voru á flótta vegna þess að þau hafi átt fullt í fangi með að útvega okkur mat, sem hafi ekki verið auðvelt í stríðsástandi. „Ég sagði aldrei frá því að strákarnir voru far[nir] að áreita m[ig] því ég var „öðruv[í]si[,]“ bæði [vegna] a[nnarrar] trúar og þjóðerni[s] og síðan sem flóttamaður. Ég sagði aldrei frá því að mig langaði í skó sem voru ekki með götum á eða kvartaði yfir því að ég labbaði heim úr skólanum (30 mín ganga) með blóðuga fætur því skórnir sem ég fékk frá [R]auða krossi[num] pössuðu ekki. Ég þurfti kannski ekki [að] segja neitt því ég er viss um að foreldrar mínir vissu þetta allt saman en gátu svo sem l[í]tið gert í því. Enginn vinna var í boði í slíku [á]standi og þá voru heldur engi[r] peningar til staðar.

„M[ig] dreymdi oft og lét mig oft dreyma um (á þessum tíma) að komast í burtu frá þessu ömurlega [á]standi og búa á stað þar sem ég þurfti ekki [að] hafa áhyggjur og [hugsa] af hverju ei[tthvert] land vildi ekki taka við okkur. Skildi þetta ekki þá og á mjög erfitt að skilja þetta í dag einnig,“ bætir Jasmina við.

Komust loks til Íslands

Eftir fjögur ár á flótta gafst fjölskyldunni loks tækifæri til að koma til Íslands. „Síðan fáum við [hið] gullna tækifæri að komast til Ísland[s] (ekki sem flóttamenn og [ég] ætla [að] leyfa mér að segja sem betur fer). Við vorum þau heppnu! Við vorum að springa úr gleði. Okkur var alveg sama að þurfa vinna í fiski og fá lágmarkslaun, oft á tíðum ekki ein[u] sinni það, búa út[i] á landi og eiga ekki b[í]l og að það snjóaði marga metra snjór liggur við alla[n] ársins hring. Okkur var alveg sama því við vorum örugg og gátum keypt í matin[n] og áttum húsnæði sem við gátum borgað sjálf af því við vorum í vinnu,“ segir hún.

„Heitt vatn og rennandi vatn almennt, rafmagn og sjónvarp voru plús lúxus sem við fögnuðum mikið. Áhyggjurnar voru lengi að hverfa og það tók mig nú örugglega 4 ár að átta mig [á] að ég bjó ekki í stríðsástandi lengur og að ég [væri] frjáls. Ég mátti ferðast út um allt og ég hafði minn rétt. Kv[í]ðin[n] hvarf ekki, hann var háður mér alla æ[v]i síðan ég var krakki. Sem krakki þróaði ég þennan kvíða í því ástandi sem ég bjó og enn [þann] dagi í dag sem fullorðin manneskja þarf ég [að] díla við hann,“ segir Jasmina einnig.

Leitaði sér hjálpar vegna kvíða

Það fór svo að Jasmina leitaði sér hjálpar vegna kvíðaröskunar sinnar. „Ég f[ó]r 29 ára gömul og leitaði mér fyrst hjálpar við kvíða því ég ýtti þe[ssu] alltaf í burtu og hélt öll þessi ár að maður verður að vera sterkur og harka þetta a[f] sér. Þetta var normið í stríðinu og ég n[á]ði ekki breyta því án s[é]rfræði hjálpar þó ég v[æri k[o]min til Íslands í öruggt umhverfi.“

„Á þeim tíma sem ég var barn var bara ekkert tími til að vera með aumingjaskap og valda foreldrum áhyggjum. Við þurftum [að] komast af lifandi. Þetta var eina markmið okkar. Eðlilegast fannst mér að þurfa vera kvíðin fyrir öllu. Óvissa var verst (enn daginn í dag þoli ég ekki óvissu og get brugðist mjög illa og harkalega við því),“ bætir hún við.

Hún segist loksins hafa náð um utan um kvíðann þegar hún var komin yfir þrítugt. „Þetta var ekki normið og ekki eðlilegt að þurfa alltaf [að] vera kvíðin. Ég var búin að þróa með mér meðvirkni, samviskubit, fullkomn[una]ráráttu og guð má vita hvað. Fyrst þá greindis[t] ég með áfallastreituröskun og alvarlega[n] kvíða. [Það var e]kki fyr[r] en ég var farin [að] hafa áhyggjur að börnin mín v[æ]ru að deyja og gekk eins og brjálæðingur um húsið og alltaf [að] tékka á þeim sem ég áttaði mig á því að ég þ[yrfti] gera eitthvað í þessu.

Eigum ekki að senda börn og foreldra úr landi

„Besta í þessu öllu sem betur fer er að ég fékk tækifæri á Íslandi og nýtti mér það. Ég er á mjög góðum stað í lífinu í dag þökk sé þessu tækifæri sem mér var gefið. Ég vann úr mínu[m] málum en kv[í]ði er því miður ennþá til staðar. Ekki í eins alvarlegu og miklu magni og áður en hann er samt til staðar. Ég bara ræð mikið betur við hann. Sálfræði aðstoð til þriggja ára kom mér á betri stað í lífinu,“ segir Jasmina.

Að lokum sendir hún skýr skilaboð til yfirvalda: „Við eigum ekki [að] senda börn og foreldra þeirr[r]a úr landi sem eru [að] leita að öryggi og þannig stefna líf[i] þeir[r]a í hættu. Það er ekkert betra en að vera öruggur. Þeir sem hafa ekki upplifað slíkt geta átt erfitt [með] að skilja það hversu mikilvægt það er. Ef þú ert ekki öruggur þá b[ýrð ]þú við mikið skert lífsgæði.“

Jasmina segir að flótti úr heimalandi sé aldrei gerður til skemmtunar og hvað þá með börn. „Þegar foreldrar ákveða það þá er það gert sem neyðarúrræði því það er ekkert annað í stöðunni nema reyna [að] lifa af. Fyrir utan það erum við einfaldlega [að]  brjóta Barnasáttmála ef við stefnum heilsu og líðan barna í hættu og er [það] önnur ástæða [fyrir því að] við eigum ekki [að] senda börn á flótta í óöruggt umhverfi. Okkur ber sk[y]lda [til] að skipta okkur af og hjálpa. Punktur. Við búum í landi sem getur gert svo margt gott og miklu meira en við gerum. Við þurfum stjórn sem þori[r] og láta sig mann[ú]ð varða.“

„Spáið nú ef börn á flótta sem koma til Íslands fá tækifæri að búa hér í öruggu umhverfi? Þau myndu finna fyrir öryggi sem myndi klárlega koma í veg fyrir meiri kvíða og jafnvel að þróa með [sér] alvarlegra andlegt ástand. Við myndum fá einstaklinga sem vilja búa hér og stofna fjölskyldur. Haldið þið að þau myndu sitja aðgerðalaus þessi börn sem myndu fá tækifæri? Ó nei, þ[au] þrá ekki neitt heitar en [að] gefa til baka um leið og gefst tækifæri til þess,“ segir hún.