Jakob frímann: afsökunarbeiðni til elínar - aldrei ætlun að særa

Jakob Frímann Magnússon telur orð sín um samhengi milli mengaðrar fæðu og sjúkdóma hafa verið mistúlkuð. Hann biður hins vegar þá innilega afsökunar sem túlkuðu orð hans með þeim hætti að þau væru særandi: „Það var síður en svo ætlun mín að særa einn eða neinn með ummælum mínum og bið ég þá innilega forláts sem túlkuðu orð mín með þeim hætti. Ég tel einfaldlega að það sé eitt af helstu forgangsmálum okkar að beina athygli vísindamanna og yfirvalda að þessum grundvallarmálaflokki svo bæði sé hægt að greina betur hvað ber að varast og í framhaldinu að upplýsa almenning sem best,“ segir Jakob, en hann hafði samband við DV vegna málsins.

Þetta kemur fram á vef DV.

„Í umræðu um samhengið á milli mengaðrar fæðu og sjúkdóma af ýmsum toga, þ.m.t. fjölgun greindra tilfella ófrjósemi og einhverfu í heiminum, nefndi ég kenningar um Toxic Effect sem m.a. er að finna í bók eftir Barböru Demeneix, Toxic Coctail,“ segir Jakob.

Eftirfarandi orð Jakobs í þættinum hafa helst valdið uppnámi: „Þegar slíkt mengað sæði rennur saman við mengað egg, þá gerist þessi kokteil-effect, sem þýðir að börnin fæðast starandi út í blámann og ná ekki sambandi við neitt. Bráðaeinhverfa!“

Hér má lesa frétt DV í heild sinni sem fjallar ítarlega um málið en þar er birt afsökunarbeiðni til Elínar.