Ísraelsmenn: já, það vorum við

Ísraelsmenn viðurkenndu opinberlega í fyrsta skipti í dag að þeir hefðu gert árás á leynilegan kjarnakljúf í Sýrlandi fyrir 11 árum síðan.

Átta ísraelskar orustuvélar af gerðunum F-16 og F-15 tóku þátt í árásinni sem farin var í skjóli nætur í september 2007 og vörpuðu sprengjum á skotmarkið eftir tveggja tíma flug inn fyrir landamæri Sýrlands. Þeim tókst að eyðileggja kjarnakljúfinn. Smíði hans var enn í gangi en talið var að hefði fullklárast innan nokkurrra mánaða. Ef Sýrlendingum hefði tekist að klára smíðina hefðu þeir náð að verða fyrsta kjornorkuveldi Arabaheimsins.

Það, að Ísraelsmenn dreifðu upplýsingum um árásina 2007 til fjölmiðla í dag er ekki talin nein tilviljun. Undanfarið hefur Ísraelsstjórn verið í pólitískri herferð gegn Íran, nánum bandamanni Sýrlendinga, og gegn samningunum sem eru í gildi um að takmarka kjanorkuáætlanir Írana.