Íslenska og græna bílageðveikin

Umskipti eru hröð á íslenska bílaflotanum.  Það er eins og þjóðin hafi vaknað og líka séð að umhverfisvænni bílar eru miklu ódýrari að reka.

Við fjöllum mikið um þetta í umhverfisþætti Hringbrautar - Súrefni.

 Hlutdeild raf og tengiltvinnbíla á innfluttum nýjum bílum til landsins vex hratt og er hlutfallið aðeins hærra í Noregi. Það sem af er þessu ári eru 18,5 prósent innfluttra bíla af þessari tegund. Árið 2012 er örlagaárið. Undanþága stjórnvalda frá virðisaukaskatti fyrir rafbíla skipti miklu. Danir sáu þetta þegar þeir hættu þess konar ívilnun að þá féll eftirspurn eftir rafbílum eða tvinnbílum. 

Árið 2015 verður sprenging hér á landi. Hlutfallið af heildarinnflutningi af umhverfisvænni bílum verður 4 prósent. Fluttir eru inn 389 hreinir rafbílar og 170 tengiltvinnbílar. Árið eftir, 2016 þá eru fluttir inn 376 rafbílar og 782 tengiltvinnbílar.

Íslendingar gera margt með áhlaupi. Þessi ár hefur verið uppsveifla og aukinn kaupmáttur hjá flestum stéttum og íslenska geðveikin varð laus - og til góðs fyrir umhverfið.  

Forstjóri Öskju og formaður Bílgreinasambandsins sagði nýlega á Hringbraut í gær að  allt stefndi í að verð á nýjum bílum, nema rafmagnsbílum, hækki um 35 prósent í tveimur hækkunum 1. september og 1. janúar nk. í gegnum EES-samninginn vegna nýs mengunarmælikvarða Evrópusambandsins.

Við hljótum að álykta að íslenska bílageðveikin haldi áfram að óbreyttu.