Íslensk yfirvöld bregðast í máli Hauks

Fjölskylda Hauks Hilmarssonar gagnrýna Guðlaug Þór utanríkisráðherra harðlega:

Íslensk yfirvöld bregðast í máli Hauks

Fjölskylda Hauks Hilmarssonar gagnrýnir Guðlaug Þór Þórðarsson utanríkisráðherra harðlega fyrir fálæti í nýrri yfirlýsingu og segir ráðherra hafa neitað í lengstu lög að hitta fjölskylduna. Fjölskyldan segir utanríkisráðuneytið hafa farið með leitina að Hauki eins og hverjum öðrum „óskilamun“ og algert getuleysi sé þar á bæ til að afla upplýsinga um hvar Hauk eða líkamsleifar hans megi finna.

„Það fékk mjög á fjölskyldu og vini Hauks, að sjá stjórnvöld fara með leitina að líki hans eins og um venjulegan óskilamun væri að ræða, sérstaklega í ljósi þess að þá höfðu komið fram sögur sem gáfu vonarglætu um að Haukur kynni að vera á lífi. Þær upplýsingar reyndust rangar en það gátu starfsmenn Utanríkisráðuneytisins ekki vitað. Móðir Hauks reyndi að ná tali af Utanríkisráðherra rétt fyrir hádegi en hann svaraði ekki síma. Hún sendi honum tölvupóst tæpum þrem tímum síðar þar sem hún krafðist þess að hann beitti sér í málinu og hefði samband við sig. Utanríkisráðherra taldi sig hafa mikilvægari hnöppum að hneppa en að svara henni".

Hins vegar þakkar fjölskylda Hauks starfsfólki ráðuneytisins og lögreglu:

„Við viljum þakka starfsfólki Utanríkisráðuneytis og lögreglu fyrir hlýhug og vinsemd sem þau hafa sýnt okkur. Við efumst ekki um samúð þeirra og vilja til að leysa málið en getuleysið er æpandi og ekki að sjá að neinn beri ábyrgð á upplýsingaöflun um málið".

Utanríkisráðherra hefur fallist á að hitta fjölskylduna Kl.15 í dag. Í yfirlýsingunni segir að krafa hafi verið um að ráðherra hitti aðeins tvo fjölskyldumeðlimi en það sætti hún sig ekki við og mæta því fleiri en það til fundar við ráðherra.

Samskiptum við yfirvöld á Íslandi er m.a. lýst svona í yfirlýsingunni:

„Fjölskylda Hauks átti annan fund með ráðuneytinu og lögreglu kl. 16 í gær. Stjórnvöld höfðu þá haft fjóra daga til þess að spyrja Tyrki hvort þeir séu með líkið eða geti gefið aðrar upplýsingar um afdrif Hauks en ekki gert neina alvöru tilraun til þess. Á fundinum kom fram að fyrirspurn til Sendiráðs Tyrklands í Osló, um afdrif Hauks, hefðu ekki fylgt neinar myndir eða lýsingar á líkamseinkennum sem gætu gagnast við að bera kennsl á líkið. Enn fremur að ekki væru uppi áform um að hafa beint samband við Tyrki eða Nató og að ráðuneytið gæti ekki gefið nein loforð um að útvega aðstandendum símanúmer og netföng ráðamanna í Tyrklandi svo þeir geti lokið rannsókn þessa máls sjálfir. Utanríkisráðherra neitaði að mæta á fundinn en fékkst til þess, eftir þaulsetu aðstandenda í húsakynnum ráðuneytisins og hótanir um fjölmiðlafár, að hitta okkur daginn eftir".

Í tilkynningunni segir einnig: 

„Við krefjumst þess að Utanríkisráðherra sjái tafarlaust til þess að haft verði beint samband við yfirvöld í Tyrklandi og Nató og upplýsinga aflað um það hvort Haukur er lífs eða liðinn. Enn fremur að ef Tyrkir eru með líkamsleifar Hauks, sjái Utanríkisráðherra til þess að þær verði sendar til Íslands."

 „Þegar ríki sem er í hernaðarsamstarfi við Ísland drepur íslenskan ríkisborgara, þá getur utanríkisráðherra ekki hegðað sér eins og hernaðaryfirvöld þess ríkis hafi skotið flækingshund".

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér

Nýjast