Íslensk ferðaþjónusta

Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðþjónustunnar flutti kraftmikla ræðu á ferðaþjónustudeginum í síðustu viku. Í ræðunni fór Grímur yfir stöðu ferðaþjónustunnar í íslensku samfélagi. Hvernig ferðaþjónustan hefur náð ótrúlegum árangri í glímunni við gríðarlegan vöxt en honum hafi engu að síður fylgt miklir vaxtaverkir og áskoranir.

Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum en á síðasta ári kom 1,8 milljón ferðamanna til landsins og stefnir í að 2,3 milljónir ferðamanna sæki landið heim á þessu ári. Þetta er fordæmalaus vöxtur í alþjóðlegu samhengi sagði Grímur.

\"Þessi staðreynd kallar enn á nýtt stöðumat um þróun ferðaþjónustu og sjálfbærni greinarinnar til framtíðar\" sagði Grímur sem nefndi slæmt ástand vegakerfisins og ástand húsnæðismarkaðarins til sögunnar. Grímur sagði: \"Í því sambandi kemst ég ekki hjá því að leiðrétta þann misskilning að staðan á þessum tveimur sviðum sé ferðaþjónustunni að kenna en vissulega hefur vöxtur ferðaþjónustunnar afhjúpað þá staðreynd að vegakerfið hefur verið fjársvelt og mikill skortur hefur verið a framboði á íbúðarhúsnæði undanfarin átta ár.\"

Grímur sagði að lausnin felist ekki í því að auka skatta eða álögur á ferðþjónustuna. \"Greinin mun skila ríkissjóði 90 milljörðum króna í skatta og gjöld á þessu ári og þar af 20 nýjum milljörðum frá árinu á undan. Vilji menn horfa til enn frekari skatttekna af greininni þá hvet ég stjórnvöld til að gyrða sig í brók og ná í þá 6 milljarða til viðbótar sem KPMG áætlat lauslega að ríkissjóður verði nú af árlega vegna leyfislausrar íbúðargistingar\" sagði Grímur.

Í ræðunni sagði Grímur ennfremur: \"Meginlausn á stærstu áskoruninni - örum vexti í fjölda ferðamanna - er betra skipulag í sátt við samfélag sem er einmitt yfirskrift þessa fundar. Þar mun aðgangsstýring leika lykilhlutverk.\"

Nánar www.saf.is