Íslendingar voru ekki víkingar

Landnámsmenn Íslands voru ekki víkingar. Uppruna okkar er ekki hægt að rekja til neinna hetjumenna sem er í tísku að kalla víkinga.

Því hefur hins vegar verið haldið fram í kennslubókum í Íslandssögu fyrir börn og víða um heim og hér á landi í ferðabransanum.

En það virðist ekki skylt að hafa það sem sannara reynist, sagði Árni Björnsson menningarsagnfræðingur í erindi sem hann flutti fyrr í mánuðinum í apríl í Þjóðminjasafninu undir heitinu „Frelsa oss frá Víkingum og kóngum“. Því hefur aftur á móti verið haldið á lofti sem hljómar skemmtilegast og mest spennandi og sem tekur sig vel út á myndum, segir Árni.

Árni segir: „Ég ætla hinsvegar einkum að fjalla um eina uppdiktun, sem þó er ekki nema að litlu leyti heimatilbúin, heldur hefur mestanpart verið troðið upp á okkur og reyndar alla Norðurlandabúa. Það er víkingarómantíkin”.

Til að mynda eru engar heimildir til um þekktan „víkingahjálm“, hjálm með hornum né um skip víkinga. Árni segir: „Annað mjög villandi atriði varðandi landnámið og landafundina er sú mynd sem sífellt er reynt að gefa af skipum landnámsmanna. Menn eru að smíða glæsileg seglskip eftir hinum bráðfallegu norsku langskipum, sem voru grafin úr jörðu kringum aldamótin 1900. Þess háttar glæsiskip gátu hentað vel með ströndum fram í Skandinavíu og á Eystrasalti til að ‚fara með löndum‘, en ekki á úthafinu. Mönnum hefur reyndar tekist að sigla á þessum skipum yfir Atlantshafið – að vísu undir gjörgæslu“.

Árni segir að einnig að það sé ekki rétt að Íslendingar séu komnir af konungum nokkurs konar. Sannleikurinn sé öðruvísi en að Árna mati mun merkilegri en þykir vinsælt að halda úti.

Árni var gestur í Sögustund með Lindu Blöndal og Sigmundi Erni í gærkvöld, sumardaginn fyrsta. Og að sjálfsögðu segir höfundur Sögu daganna hvaðan þessi dagur á uppruna sinn. Þátturinn er endursýndur í dag og um helgina, en einnig aðgengilegur á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.