Landinn hættur að fara á Laugaveginn

Fréttaþátturinn 21:

Landinn hættur að fara á Laugaveginn

Bolli Ófeigsson og Vigdís Guðmundsdóttir
Bolli Ófeigsson og Vigdís Guðmundsdóttir

„Það sem mér finnst núna er að eftir lokunina á Laugaveginum fyrir neðan Vatnsstíg hefur það verið þannig að Íslendingar eru hættir að fara Laugaveginn. Það er erfitt að fá bílastæði, það eru færri bílastæði á Laugaveginum. Það er erfiðari aðkoma, sérstaklega á veturna. Það er ekki skafað. Miðbærinn er bara búinn að breytast,“ segir Vigdís Guðmundsdóttir kaupmaður hjá Dís Dís á Laugavegi.

„Fyrsti dagur í lokun, þegar þau byrja að loka hérna á vorin, þá er fyrsti núlldagurinn á árinu. Þetta hefur haft þannig áhrif að það er stigminnkandi verslun í miðbænum. Eins og núna, nú er opið, og það er engin bílaumferð framhjá mér. Það er á margra mínútna fresti sem einn og einn bíll rennir framhjá. Það er alltaf stæði líka fyrir utan. Íslendingarnir eru hættir að nenna að koma,“ segir Bolli Ófeigsson gullsmíðameistari hjá Gullsmiðju og Listmunahúsi Ófeigs á Skólavörðustíg.

Bolli og Vigdís eru gestir Björns Jóns Bragasonar í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem þau ræða lokanir Reykjavíkurborgar fyrir bílaumferð á verslunargötum í miðbænum. Þau segjast finna fyrir því að lokanirnar hafi slæm áhrif á sölu í verslunum sínum og öðrum í kring og skilja ekki stefnu borgarinnar í þessum efnum.

Bolli segir fyrirtæki sitt hafa beðið um lokanir af þessu tagi til að byrja með. „Af því að Laugavegurinn lokaði, þá báðum við um lokun. Við vildum fá það líka og svo aftur á næsta ári og þá var þetta svona hálfur mánuður. Svo er alltaf verið að lengja þetta og við sjáum það að þetta er sko ekki að virka. En við vorum alveg til í allt, að prófa. Þetta var tilraun til þess að auka mannlíf og veltu en þetta hefur algjörlega misheppnast.“

Aðspurð um hvað sé til ráða til að ná verslun aftur á strik á svæðinu segir Vigdís: „Það verður að opna fyrir umferð og það verður að bæta bílastæðamál. Og hætta að þrengja götur, til þess að komast að. Þetta eru bara lykilatriði í að rekstur geti þrifist í miðbænum.

Nánar er rætt við Bolla og Vigdísi í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast