Íslandspóstur hyggst selja samskipti – „prentsmiðjurekstur ekki hluti af kjarnastarfsemi og því ákveðið að selja félagið“

Í dag auglýsti Íslandspóstur allt hlutafé í dótturfélagi sínu, Samskiptum ehf., til sölu. Forstjóri Íslandspósts segir prentsmiðjurekstur ekki hluta af kjarnastarfsemi fyrirtækisins og því hafi verið ákveðið að selja félagið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti.

„Íslandspóstur stendur á tímamótum og nauðsynlegt er að líta á alla hluta rekstrarins og endurmeta hvernig fyrirtækið á að vera byggt upp til framtíðar. Undanfarið hafa stjórnendur og stjórn félagsins unnið saman að gerð áætlunar til þess að umbreyta rekstrinum og hefur meðal annars verið gripið til víðtækra hagræðingaraðgerða og endurskipulagningar. Salan á Samskiptum er hluti af þessu breytingaferli en okkar helstu markmið eru að stórbæta þjónustu til viðskiptavina, snúa rekstri Íslandspósts úr tapi í hagnað og einbeita okkur að kjarnastarfsemi fyrirtækisins, segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts.

„Prentsmiðjurekstur er ekki hluti af þeirri kjarnastarfsemi og því var ákveðið að selja félagið. Við vonumst til að söluferlið gangi hratt og örugglega fyrir sig enda er Samskipti þekkt og öflugt fyrirtæki á sínu sviði og er sem slíkt mjög áhugaverður fjárfestingarkostur,“ bætir hann við.

Í tilkynningunni kemur fram að salan á félaginu fari fram í samstarfi við Deloitte ehf., sem er ráðgjafi Íslandspósts í söluferlinu. Frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboði er til klukkan 16:00 þann 10. október næstkomandi.