Ísland er spilltasta land norðurlanda

Ísland er spilltasta ríki Norðurlanda samkvæmt nýrri úttekt Transparency International, sem ruv.is vitnar til í dag. Engu að síður telst spilling lítil hér á landi því Ísland er í hópi þeirra ríkja þar sem hvað minnst spilling fyrirfinnst.
 

Transparency International eru alþjóðleg samtök sem hafa mælt spillingu í ríkjum heims undanfarinn aldarfjórðung. Í nýjustu spillingarmælingunni sem gefin var út í dag og mælir spillingu ríkja árið 2017, telst Nýja Sjáland vera óspilltasta ríki heims og skiptir það um sæti við Danmörku sem nú er í 2. sæti. Fjögur ríki Norðurlanda, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð eru á meðal 7 minnst spilltu ríkja heims, en 5. ríki Norðurlanda, Ísland hafnar í 13. sæti, af 180. Það er svipað og í fyrra þegar Ísland var í 14. sæti.

Spilltustu ríki heims þykja vera Jemen, Afganistan, Sýrland, Suður-Súdan og Sómalía. Af ríkjum Evrópu telst Rússland vera spilltast, það er í 135. sæti. Á vef Transparency International segir að þjóðir heims taki litlum framförum þegar kemur að því að útrýma spillingu og að frekari greining sýni að blaðamenn og aðgerðasinnar í spilltum löndum, leggi líf sitt að veði daglega með frásögnum sínum. Þessir tveir hópar séu lífsnauðsynlegir þegar kemur að því að berjast gegn spillingu.