Ísland á að fylgja norðurlöndum

 

Hvernig á Ísland að bregðast við úrsögn Breta úr Evrópusambandinu? Við þessari spurningu er ekkert algilt svar eins og sakir standa. En mikilvægt er að meta stöðu Íslands í nýju ljósi bæði í efnahagslegu tilliti og pólitísku og glöggva sig á hvaða kostir eru í stöðunni.

Erfitt er að benda á aðrar kosningar í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld sem valdið hafa meiri vatnaskilum en þjóðaratkvæðið í Bretlandi síðastliðinn fimmtudag. Árifin verða vitaskuld mest í Bretlandi. En Evrópa öll mun finna fyrir þeim.

SIGURVEGARARNIR SEGJA AÐ EKKERT LIGGI Á ÚRSÖGN

Eftir afsögn breska forsætisráðherrans flyst ábyrgðin á ríkisstjórn Bretlands innan tíðar yfir á herðar þeirra sem fóru með sigur af hólmi. Það er rökrétt niðurstaða. Fyrstu yfirlýsingar þeirra benda til að þeir hafi ekki meint allt sem þeir sögðu í kosningabaráttunni.

Sigurvegararnir segja nú að ekkert liggi á að framfylgja vilja kjósenda. Þeir ræða jafnvel um að fresta því um ár. Nú ætla þeir ekki að stöðva straum innflytjenda; bara breyta einhverju um það hverjir megi koma. Þær raddir heyrast jafnvel að ekki verði hægt að flytja alla þá peninga frá Brussel til bænda og í heilbrigðiskerfið eins og til stóð fyrir þjóðaratkvæðið. Málið er afgreitt með því að segja að mistök hafi verið að gefa loforðið.

Stóra verkefni nýrrar ríkisstjórnar í Bretlandi verður að leggja fram tillögur um það hvernig hún hyggst standa við það fyrirheit að landið muni eftir sem áður njóta sömu stöðu á mörkuðum í Evrópu. Ástæðan fyrir því að forystumenn væntanlegrar ríkisstjórnar í Bretlandi tala um að fresta því að senda Evrópusambandinu uppsagnarbréfið er ugglaust sú að þeir vita ekki hvers kyns  tillögur þeir ætla að legga fyrir aðrar þjóðir í þeim efnum.  

ÞJOÐERNISPOPÚLISMI GAGNVART ÁBYRGÐ OG HÓFSEMI

Þjóðernispopúlistar um alla Evrópu fagna úrslitunum. Þeir telja sig hafa fengið byr í seglin og sjá fyrir sér að draumurinn um að sundra Evrópusamvinnunni sé nú að rætast. Telja verður mjög líklegt að þjóðernispopúlistar muni styrkja stöðu sína í framhaldi af ákvörðun bresku þjóðarinnar.

Hitt er þó ekki unnt að útiloka að ábyrgari og hófsamari öfl í evrópskum stjórnmálum nái vopnum sínum. Það ræðst mest af viðbrögðum helstu forysturíkja Evrópusambandsins. Þau þurfa með öðrum orðum að senda afar skýr skilaboð sem líkleg eru til að endurheimta traust. En áfall af þessu tagi getur opnað mönnum dyr til þess að gera breytingar og ná samstöðu.

KOSTIR ÍSLANDS Í STÖÐUNNI

Með hæfilegri einföldun má segja að Ísland standi andspænis tveimur kostur. Annar er að fylgja Bretum og þjóðernispopúlistum annars staðar í Evrópu og stefna að upplausn innri markaðar Evrópusambandsins. Eftir það myndu viðskipti byggjast á tvíhliða samningum einstakra ríkja. Enginn hefur þó beinlínis lagt til að þessi leið verði farin.

Hinn kosturinn er að leggjast á sveif með ábyrgari og hófsamari stjórnmálaöflum í Evrópu. Það myndi þýða að Ísland stæði með þeim ríkjum sem vilja viðhalda innri markaði Evrópusambandsins.  Aðild Íslands að innri markaðnum er undirstaða útflutningshagsmuna landsins.

Val okkar er að vísu ekki alveg svona einfalt. Það ræðst vitaskuld mjög af því hvað aðrar þjóðir gera. Á sínum tíma fylgdum við Norðurlöndunum inn í Fríverslunarsamtökin og löngu síðar fylgdum við þeim inn á innri markað Evrópusambandsins. Allar Norðurlandaþjóðirnar eru nú aðilar að innri markaðnum og vegabréfasamstarfinu.  

ÁFRAMHALDANDI SAMSTAÐA MEÐ NORÐURLÖNDUM

Eins og sakir standa sýnist vera einboðið að svara spurningunni um viðbrögð Íslands með því að fylgja Norðurlöndum áfram. Við gætum líka gengið lengra og hvatt til þess að Norðurlöndin beiti sér sameiginlega fyrir því að treysta þá innviði í samstarfi Evrópusambandsþjóðanna sem mikilvægastir eru til að viðhalda innri markaðnum. Norski forsætisráðherrann hefur þegar talað í þessa veru.

Kjósi Norðurlönd hins vegar á einhverju stigi að fylgja Bretum eftir með einhverjum hætti hljótum við að skoða þá stöðu. Það er eitthvað sem menn sjá ekki fyrir í dag. En erfitt er að sjá fyrir sér þær aðstæður að hyggilegt væri fyrir Ísland að sigla sinn eiginn sjó án tillits til þess hvað Norðurlönd gera.

Loks má ekki gleyma að taka þann möguleika með í reikninginn að nýju valdhafarnir í Bretlandi muni á endanum endurnýja hjúskaparsamninginn við Evrópusambandið með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða einhverju öðru sambærilegu skipulagi sem tryggði stöðu þeirra á innri markaðnum.

Slík niðurstaða yrði að sönnu hálfgerð hringferð þar sem Bretar enduðu aftur á sama stað og lagt var frá. Jafn órökrétt og það sýnist er það eigi að síður svo að margir úr röðum nýju valdhafanna í Bretlandi hafa talað í þá veru.

Út frá íslenskum hagsmunum yrðu þetta ekki slæm endalok. En fari svo að þjóðaratkvæðið í Bretlandi verði lyftistöng fyrir þjóðernispopúlisma í allri Evrópu minnka líkurnar á því að sama skapi að unnt verði að finna farsæla lausn á stöðu Breta. Það hefði neikvæð áhrif á Ísland og önnur Evrópulönd.

Lykilatriðið fyrir Ísland er að leggja sitt af mörkum til þess að efla samstöðu Norðurlanda á þessu sviði og hvetja til þess að  þau beiti sér í varðstöðu um innri markaðinn.