Interpol lýsir eftir jóni þresti

Alþjóðalögreglan, Interpol, hefur ákveðið að lýsa eftir Jóni Þresti Jónssyni, sem hvarf 9. febrúar síðastliðinn í Dyflinni. Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir það stórt skref að Interpol hafi fengist til að lýsa eftir honum. Fréttablaðið greinir frá.

„Það var stórt skref að fá það í gegn. Maður veit ekkert hvar maðurinn er, en eins og staðan er núna erum við bara að reyna að þrauka, hengja upp veggspjöld og sýna einhvern lit,“ segir Davíð Karl í samtali við Fréttablaðið.

Fjölskylda Jóns Þrastar flaug til Írlands skömmu eftir að hann hvarf og hefur verið þar síðan og aðstoðað lögregluna í Dyflinni við leitina. Davíð Karl segir lögreglu enn berast fjölda ábendinga og að farið verði yfir þær allar.

Staðan er nokkurn veginn óbreytt að sögn Davíðs Karls en lögreglan vinnur nú að því að fara yfir mikið magn af myndbandsupptökum til þess að freista þess að rekja ferðir Jóns Þrastar daginn sem hann hvarf.