Innihaldslaus yfirlýsing seðlabankans

Engin efnissleg innistæða er í yfirlýsingu sem forkólfar Seðlabankans sendu frá sér í dag vegna Samherjamálsins svokallaða, að öðru leyti en því að verklag bankans í þessum efnum muni verða skoðað.

Tilkynningin kemur fimm dögum eftir dóm Hæstaréttar þess efnis að bankanum hafi verið óheimilt að leggja stjórnvaldssekt á Samherja fyrir meint brot á gjaldeyrislögum, en sem kunnugt er gerði bankinn sögufræga húsleit á skrifstofum sjávarútvegsfyrirtækisins heima og erlendis á útmánuðum 2012 vegna gruns um misfærslur í gjaldeyrisskilum þess, sem engin efni reyndust svo fyrir, svo sem ítrekaðar skoðanir Sérstaks saksóknara og Skattrannsóknarstjóra vitna um á síðari stigum.

Í tilkynningu bankans í dag er því enn haldið fram að full ástæða hafi verið til að skoða meintar misfellur í rekstri Samherja eftir að fyrrgrend embætti töldu rétt að láta staðar numið, kerfislægir meinbugir hafi verið á því að halda málinu áfram.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hefur brugðist hart við því sem hann segir vera aðför bankans að starfsfólki sínu, eins og vel kom fram í tæpitungulausu samtali hans við Sigmund Erni í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld, en tilkynning Seðlabankans er einmitt send út að loknu því viðtali.