Ingibjörg: „manni var bara grýtt í gólfið eða rúmið“

Að­eins um þriðjungur nauðgunarmála fara fyrir dóm en á árunum 2002-2015 voru 65 prósent nauðgunarmála á Ís­landi felld niður af hálfu sak­sóknara. Þögul mót­mæli gegn niður­fellingum nauðgunarmála fóru fram í dag. Tvær konur segja frá sinni reynslu af niðurfellingu og hvaða áhrif það hefur haft á þær.

Þetta er brot úr viðtali Fréttablaðsins. Hér má lesa viðtalið í heild sinni.

Ingi­björg Sigurðar­dóttir kærði tvo menn fyrir kyn­ferðis­legt of­beldi og í báðum til­fellum var málið fellt niður. Ingibjörg segir að annað málið hafði verið fellt niður vegna þess að það var „orð gegn orði“ en í hinu málinu var sagt að hún væri að nota kæruna til að tálma um­gengni.

Fyrri kæra hennar var felld niður í fyrra en það hafði verið í kringum ár á þvæling í kerfinu. Gerandinn í því máli er barns­faðir hennar en hún lýsir því að hann hefði mis­notað bæði sig og eldri börn hennar. „Manni var bara grýtt í gólfið eða rúmið eða hvað það var, þar til hann fékk sínu fram,“ segir Ingi­björg en á þeim tíma bjó hún með manninum.

Að sögn Ingi­bjargar fór það mál einnig til Barna­húss þar sem það kom skýrt fram að börnin höfðu orðið fyrir þessu. Hún segir manninn hafa ráðið góðan lög­fræðing sem hafi síðan fengið málið fellt niður. Sá úr­skurður hafi verið mjög sorg­legur þar sem börn áttu einnig hlut í málinu.

Þetta er brot úr viðtali Fréttablaðsins. Hér má lesa viðtalið í heild sinni.