Illugi í áfalli: „ég fór nærri því að hágrenja“ – „þetta er svo ógeðslegt“

„Það gerist ekki oft núorðið að manni blöskri.  En það gerðist nú í morgun. Þegar ég las frétt Fréttablaðsins um að ríkið hefði hafnað gersamlega og með þjósti öllum kröfum Guðjóns Skarphéðinssonar um bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála. Ég get svo svarið það að ég fór nærri því að grenja.“

Þetta segir Illugi Jökulsson í pistli á Stundinni eftir að Fréttablaðið greindi frá því að ríkið hafni öllum kröfum Guðjóns Skarphéðinssonar sem var með ofbeldi kúgaður til að játa á sig morð. Þá krefst ríkið málskostnaðar úr hendi Guðjóns. Illugi spoyr hvort ríkið og réttarkerfið ætli aldrei að sýna manndóm.

„Aldrei að þvo af okkur þann viðbjóð sem Guðmundar- og Geirfinnsmál eru? Það hefði svo sem mátt búast við að ríkið maldaði eitthvað í móinn gagnvart ýtrustu bótakröfum Guðjóns. En að hafna þeim öllum afdráttarlaust! Og á þeim forsendum að „Guðjón hafi sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir bótakröfu sína á. Og það er vísað til dóms Hæstaréttar frá 1980 þar að lútandi!!! Sá dómur hafi fullt sönnunargildi um málsatvik. Ekkert bendi til þvingunar af hálfu lögreglu eða dómsmálayfirvalda. Og svo framvegis.“

Illugi bætir við að hann geti ekki hugsað sér að fara í gegnum málflutning Andra Árnasonar ríkislögmanns í málinu, hann sé svo sorglegur, svo forstokkaður, svo viðurstyggilegur. En Andri var sérstaklega skipaður ríkislögmaður til að svara bótakröfum sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Illugi segir:

„Hann var handvalinn af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og það skal enginn segja mér að hann hafi ekki haft einhvers konar samráð við sinn yfirmann í svo veigamiklu máli.

Já, auðvitað hefur ríkisstjórn Katrínar gefið starfsmanni sínum fyrirmæli um hvernig ætti að bregðast við. Það kemur vart annað til mála.“

Ríkisvaldið var áður búið að bjóða sakborningum í málinu bætur, nema Erlu Bolladóttur, sem þau höfnuðu. Þá gerist þetta.

„Þeir eigi ekki að fá neitt, því þetta sé þeim að kenna! Gott ef þeir eru ekki bara sekir, ha? spyr sérlegur ríkislögmaður ríkisstjórnarinnar í raun. Það er svo ógeðslegt, svo ofboðslega ógeðslegt að fá þetta framan í sig eins og blauta tusku,“ segir Illugi og bætir við:

„Að ríkisvaldið ætli enn - árið 2019 og það ríkisstjórn undir forystu til þess að gera ungs fólks sem ætti ekki að vera samdauna kerfinu frá því fyrir áratugum - þá ætlar ríkisvaldið enn að verja fram í rauðan dauðann það kerfi sem færði okkur hinn svarta blett Geirfinns- og Guðmundarmála.“